Fótbolti

Part­ey á leið til Villareal þrátt fyrir nauðgunar á­kærur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á leið til Villareal verði hann ekki dæmdur í fangelsi.
Á leið til Villareal verði hann ekki dæmdur í fangelsi. Vísir/Getty Images

Miðjumaðurinn Thomas Partey hefur náð samkomulagi við Villareal í efstu deild spænska fótboltans. Það virðist skipta Villareal litlu máli að leikmaðurinn hafi verið ákærður af lögregluyfirvöldum í Bretlandi fyrir nauðgun.

Hinn 32 ára gamli Partey hélt áfram að spila fyrir Arsenal þó svo að hann hefði verið yfirheyrður af lögreglunni á Bretlandseyjum oftar en einu sinni vegna málsins. The Athletic greindi frá því að Arsenal hafi viljað framlengja við leikmanninn. Á endanum gekk náði félagið ekki saman við Partey og því rann samningur hans út.

Það var svo í sumar, þegar miðjumaðurinn var án liðs, að hann var handtekinn og ákærður. Ákæruliðirnir eru sex og beinast gegn þremur konum.

Meint brot áttu sér stað á árunum 2021 og 2022. Rannsókn hefur staðið yfir síðan í febrúar 2022 þegar fyrsta málið var kynnt til lögreglu. Málið verður tekið fyrir í réttarsal þann 5. ágúst næstkomandi.

Þetta virðist skipta Villareal litlu sem engu máli. Hefur félagið náð samkomulagi við Partey sem er sagður vera í þann mund að skrifa undir tveggja ára samning eftir að hafa staðist læknisskoðun.

Partey spilaði fyrir Atlético Madríd, Mallorca og Almería áður en hann gekk til liðs við Arsenal árið 2020. Hann á að baki 53 A-landsleiki fyrir Gana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×