Innlent

Á­kvörðun ráð­herra muni seinka við­bragði við far­öldrum fram­tíðar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
image00003.jpeg

Prófessor í smitsjúkdómalækningum segir ákvörðun heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna um að rifta samningum um þróun mRNA-bóluefna vera slæmar fréttir fyrir heimsbyggðina. Hún muni seinka viðbragði við faröldrum framtíðar. Vagga vísindalegrar þekkingar sé að leggja upp laupana.

Robert F. Kennedy, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna sagðist hafa yfirfarið vísindin og hlustað á sérfræðinga áður en hann tók ákvörðun um að rifta 22 þróunarsamningum sem hljóða upp á fimm hundruð milljónir dala. Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómalækningum segir um afdrifaríka ákvörðun að ræða.

„Um er að ræða riftun á samningum sem áður hafa verið gerðir og snúa sérstaklega að viðbragði við nýjum farsóttum eins og til dæmis fuglaflensu."

Kennedy sagði mRNA bóluefnin ekki hafa reynst áhrifarík gegn öndunarfærasýkingum á borð við Covid-19.

Hvers vegna segir hann þetta?

„Mér er það algjörlega hulið. Ég held að þessi ákvörðun sé keyrð frekar áfram af hugmyndafræði en vísindum og flest sem hann hefur látið frá sér fara um þessi mál ber þess merki að það eru ekki vísindin sem keyra hans ákvarðanir heldur hugmyndafræði og trú á ákveðnar kenningar sem flestar hafa ekki stuðning í raunverulegum gögnum.“

MRNA tæknin var innleidd í COVID faraldrinum en það liðu rétt tæpir 12 mánuðir frá því fyrstu tilfellin komu upp þar til bóluefnin voru tekin í notkun.

„og áttu líkalega mestan þátt í því að draga úr óþarfa dauðsföllum og líka síðbúnum og langvinnum fylgikvillum sýkingarinnar.“

Ákvörðunin Kennedys muni hafa víðtæk áhrif til langrar framtíðar.

„Fyrir okkur sem þurfum hugsanlega að reiða okkur á framfarir í læknavísindum í framtíðinni hvort sem um er að ræða ný bóluefni gegn einhverjum vágestum sem við höfum ekki ennþá komist í tæri við eða jafnvel í meðferð krabbameina, vegna þess að mRNA tæknin hefur líka skilað mjög góðum árangri í meðferð illkynja sjúkdóma. Það er mikill skaði þegar mesta efnahagsveldi heims og vagga vísindalegrar þekkingar og rannsókna í bæði grunnvísindum og klínískum rannsóknum leggur upp laupana sem þarna er verið að gera.“

Magnús bendir á að Kennedy sé lögfræðimenntaður.

„Hann hefur enga sérstaka þekkingu á þessu sviði en hann hefur hins vegar efnast mjög á því að dreifa falskenningum um aukaverkanir af bólusetningum og það hefur vafalítið verið nokkuð sterkur drifkraftur í kringum hann. Svo er það þannig að bóluefni eru fórnarlömb eigin velgengni því þegar vel tekst til og okkur tekst að útrýma tilteknum sjúkdómum þá fer fólk að leiða hugann að því hvort þessi aðgerð, bólusetningarnar, séu nauðsynlegar vegna þess að vandamálið hverfur.“


Tengdar fréttir

Ekki fleiri greinst með mis­linga í Bandaríkjunum í 33 ár

Alls höfðu um 1.300 verið greindir með mislinga í Bandaríkjunum síðasta föstudag og hafa tilfellin ekki verið svo mörg í 33 ár. Árið 2000 var því lýst yfir að búið væri að útrýma sjúkdómnum í Bandaríkjunum. Auðvelt er að koma í veg fyrir að fólk fái sjúkdóminn með bóluefni.

Rekur bólu­setningaráð stjórn­valda á einu bretti

Heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna og þekktur andstæðingur bóluefna rak ráðgjafaráð alríkisstjórnarinnar um bólusetningar eins og það leggur sig. Ráðið hefur verið skipað læknum og vísindamönnum frá læknadeildum helstu háskóla landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×