Körfubolti

Ótryggður Giannis tekur ekki þátt í undir­búningi Grikk­lands

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Giannis Antetokounmpo er stærsta stjarna gríska körfuboltans en má ekki æfa eða spila með landsliðinu að svo stöddu. 
Giannis Antetokounmpo er stærsta stjarna gríska körfuboltans en má ekki æfa eða spila með landsliðinu að svo stöddu.  Gregory Shamus/Getty Images

Meðan NBA stjörnur á borð við Luka Doncic, Nikola Jokic og Lauri Markkanen æfa og spila æfingaleiki með sínum landsliðum í undirbúningi fyrir EuroBasket hefur Giannis Antetokounmpo ekki tekið þátt í undirbúningi Grikklands, sem er talið vera vegna þess að hann er ótryggður hjá gríska körfuknattleikssambandinu.

Giannis er ekki að glíma við meiðsli en hefur samt ekki tekið þátt í æfingaleikjum Grikklands síðustu daga og ekki sést á æfingum liðsins. Grikkirnir hafa undrað sig mikið á hans fjarveru en nú greinir gríski miðillinn SDNA frá því að Giannis sé ótryggður.

Hann spilar fyrir Milwaukee Bucks í NBA og samkvæmt reglum deildarinnar þurfa leikmenn að vera tryggðir fyrir meiðslum þegar þeir taka þátt í landsliðsverkefnum.

SDNA hefur leitað viðbragða hjá gríska körfuknattleikssambandinu en stjórnendur neita að tjá sig um málið.

Greint er frá því að Giannis sé mjög ósáttur við stöðuna. Hann æfir einn vegna þess að hann má ekki taka þátt í æfingum liðsins og alls óvíst er hvort hann megi spila æfingaleikinn gegn Svartfjallalandi á mánudag.

Giannis hefur verið orðaður við skipti frá Bucks í sumar, sem SDNA segir að gæti verið ástæðan fyrir seinagangi gríska sambandsins. Ef hann skiptir um félag á allra næstu dögum sleppa Grikkirnir við að greiða tryggingagjald tvisvar.

Ljóst er þó að Grikkirnir verða að tryggja Giannis fljótlega, vilji þeir hafa hann með liðinu á EuroBasket sem hefst þann 27. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×