Innlent

Flösku með bensíni kastað í hús í Hafnar­firði

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flösku með bensíni var kastað í hús í Hafnarfirði og kveikt í.
Flösku með bensíni var kastað í hús í Hafnarfirði og kveikt í.

Flösku með bensíni var kastað í hús í Hafnarfirði í gær og kveikt í, að því er segir í yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar.

Engar frekari upplýsingar er þar að finna um málið, aðrar en að minniháttar skemmdir hafi orðið á húsinu.

Alls voru um 65 mál bókuð á vaktinni og fjórir gistu fangageymslur í morgun.

Tilkynnt var um minniháttar líkamsárás og skemmdarverk í Kópavogi. Þar var einnig ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum og líkamsárás.

Lögreglu barst einnig tilkynning um innbrot og þjófnað í verslun í póstnúmerinu 111 og þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn fyrir þjófnað í póstnúmerinu 109.

Einn var handtekinn í miðborginni grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna og þá var tilkynnt um vinnuslys þar sem kona hafði fallið og fengið minniháttar áverka á höfuð.

Lögregla handtók einnig mann í 105 fyrir brot á lögreglusamþykkt.

Nokkrir voru stöðvaðir í umferðinni, flestir fyrir akstur undir áhrifum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×