Innlent

Óska eftir mynd­efni af gröfunni

Árni Sæberg skrifar
Grafan var notuð til að stela hraðbanka Íslandsbanka í Mosfellsbæ.
Grafan var notuð til að stela hraðbanka Íslandsbanka í Mosfellsbæ. Vísir/Anton Brink

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biðlar til eigenda eftirlitsmyndavéla í Mosfellsbæ og við Hafravatn að kanna hvort að þar leynist myndefni af vinnuvél, sem notuð var við þjófnað á hraðbanka í Mosfellsbæ.

Í fréttatilkynningu frá lögreglu segir að karlmaður á fimmtugsaldri hafi verið handtekinn síðastliðinn þriðjudag vegna gruns um að hafa átt þátt í þjófnaði á hraðbanka, þar sem stórvirk vinnuvél var notuð við verknaðinn. 

Áður hefur verið greint frá því að stórvirka vinnuvélin hafi verið grafa, sem tekin hafði verið ófrjálsri hendi í landi Blikastaða. 

Þá segir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi farið fram á að maðurinn yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald en ekki hafi verið fallist á kröfuna. Sveinn Andri Sveinsson, verjandi hins handtekna sagði í samtali við fréttastofu í morgun að dómari hefði ekki talið rökstuddan grun vera uppi um að maðurinn væri viðriðinn þjófnaðinn.

Loks segir að rannsókn málsins sé á frumstigi og því sé ekki hægt að veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu. 

„Við biðjum fólk í Mosfellsbæ og við Hafravatn sem hafa eftirlitsmyndavélar að kanna hvort að þar leynist myndefni af umræddri vinnuvél á tímabilinu 03:30 – 06:00 aðfararnótt þriðjudagsins þann 19.8. sl. Þau sem geta gefið upplýsingar sem nýtast við rannsókn málsins eru beðin um að senda þær í 1315@lrh.is

Veistu meira um málið? Áttu myndir eða myndbönd af vettvangi? Sendu okkur ábendingar eða myndefni á ritstjorn@visir.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×