Sport

Þrír ís­lenskir kastarar keppa á HM í Tókýó

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísland mun eiga þrjá fulltrúa á HM og þau keppa öll í kastíþróttum. 
Ísland mun eiga þrjá fulltrúa á HM og þau keppa öll í kastíþróttum.  FRÍ

Ísland mun eiga þrjá fulltrúa á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum sem fer fram í Tókýó eftir rúmar tvær vikur.

Erna Sóley Gunnarsdóttir mun keppa í kúluvarpi. Hún er ríkjandi Íslandsmeistari í greininni, bæði innan- og utanhúss, og keppti fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í París 2024. Hún er í 32. sæti heimslistans og tekur þátt á HM í annað sinn.

Erna Sóley kastar kúlunni á Ólympíuleikunum í París síðastliðið sumar.Vísir/Getty

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir mun keppa í sleggjukasti. Hún komst á HM með því að setja Íslandsmet í síðustu viku þegar hún kastaði sleggjunni 71.38 metra. Þetta verður hennar fyrsta heimsmeistaramót en Guðrún keppti fyrir Íslands hönd á EM í fyrra.

Guðrún ánægð með Íslandsmetið sem hún setti síðustu helgi. FRÍ / Hlín Guðmundsdóttir

Sindri Hrafn Guðmundsson mun keppa í spjótkasti. Hann er ríkjandi Íslandmeistari og á þriðja lengsta kast íslensks karlmanns í greininni, 82.55 metra langt kast í fyrrasumar. Sindri er í 30. sæti heimslistans og tekur þátt á HM í fyrsta sinn en hefur áður keppt á EM. 

Sindri Hrafn á EM 2018. Alexander Hassenstein/Getty Images

„Það er frábært að sjá að þrjú af okkar afreksfólki séu á leið á HM. Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum er stærsta svið íþróttarinnar fyrir utan Ólympíuleikana og erum við stolt af því að þetta frábæra íþróttafólk hafi unnið sér beint sæti þangað inn“, segir afreksstjórinn Guðmundur Karlsson í fréttatilkynningu Frjálsíþróttasambands Íslands.

Heimsmeistaramótið fer fram í Tókýó þann 13. - 21. september næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×