Innlent

Menningarráðherra skipaði son heil­brigðis­ráð­herra í formannsstörf

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Logi Einarsson menningarráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra.
Logi Einarsson menningarráðherra og Alma Möller heilbrigðisráðherra. Samsett

Menningarráðherra hefur skipað son heilbrigðisráðherra sem formann nefndar um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Báðir ráðherrar eru þingmenn Samfylkingarinnar.

Jónas Már Torfason lögfræðingur og sonur Ölmu Möller heilbrigðisráðherra var skipaður af Loga Einarssyni, menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra, sem formaður nefndar um endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. 

Jónas staðfestir samkvæmt RÚV að hann hafi fengið skipunarbréf á mánudag og var fyrsti fundur nefndarinnar í dag. Hann hefur lengi verið virkur í starfi Samfylkingarinnar, eða frá árinu 2014. Þá er hann formaður Félags frjálslyndra jafnaðarmanna og hefur setið í flokksstjórn og framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar.

Hægt er að fá 25 prósent endurgreitt af framleiðslukostnaði vegna framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis á Íslandi. Sérstök þriggja manna nefnd er skipuð, einn meðlimur er tilnefndur af menningarmálaráðherra og annar af fjármálaráðherra. Þriðji meðlimurinn, og jafnframt formaður, er skipaður án tilnefningar.

Áætlað er að endurgreiðslurnar fyrir árið í ár verði sex milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×