Fótbolti

„Á­kvarðanir dómarana höfðu mikil á­hrif á úr­slitin“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Srdjan Tufagdzic, Túfa, þjálfari Vals.
Srdjan Tufagdzic, Túfa, þjálfari Vals. Vísir/Diego

Valur tapaði gegn Fram í 21. Umferð Bestu deildar karla í kvöld þegar Fram skoraði sigurmarkið í uppbótartíma úr vítaspyrnu. Srdjan Tufegdzic þjálfari Vals ræddi við Vísi eftir leik og var sársvekktur.

Hann viðurkenndi að tilfinningin væru mjög súr eftir leik: „Sérstaklega því mér fannst við ekki eiga að tapa þessum leik. Hörkuleikur og það eru kaflar í leiknum þar sem við erum bara miklu betri. Er mest ósáttur við byrjunina í seinni hálfleik, þá hættum við að gera það við vorum að gera vel í fyrri hálfleik. Leyfum Fram að taka aðeins yfir leikinn. Heilt yfir fannst mér við þó eiga skilið að vinna þennan leik,“ sagði Tufa.

Valur vann Aftureldingu í síðustu umferð þar sem liðið var frábært í seinni hálfleik eftir slakan fyrri hálfleik. Tufa sagði það ekki áhyggjuefni að Valur væri að spila einn hálfleik vel þessa dagana.

„Ég held að þetta var ekki leikur tveggja hálfleik ef þú horfir á það útfrá frammistöðu, bara miðað við mörk. Mér finnst eftir að þeir jafna þá tökum við leikinn yfir aftur og erum að skapa færi. Mér fannst við spila vel eftir það,“ sagði Túfa.

Túfa sagði sitt lið kannski hafa komið of varfærið inní fyrstu mínútur seinni hálfleiksins: „Það var ekki planið okkar eða ætlun. Við vildum bara halda áfram að gera það sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik. Ýta þeim ofar og þrýsta þeim í langa bolta. Fram gerir líka vel.“

Dómaratríó dagsins var umdeilt og voru Valsarar allt annað en sáttir við þeirra ákvarðanir í dag.

„Mér finnst dómarinn með nokkra ranga dóma í dag. Fyrst þegar Tryggvi sleppur í gegn, er búinn að sjá það aftur og það var ekki rangstaða. Hefðum getað komist í 2-0 þar. Mér finnst við geta fengið víti líka þegar var brotið á Marius (Lundemo) og miðað við viðbrögð minna leikmanna og Sigga sjálfs var þetta ekki víti sem við fáum á okkur. Alltof harður dómur og þetta hefur mikil áhrif á úrslitin. Mér finnst við mjög óheppnir með dómgæslu í dag,“ sagði Túfa og bætti við:

„Öðruvísi þegar dómarar gera mistök sem hafa ekki áhrif á niðurstöðuna en í dag höfðu þeir mikil áhrif á úrslitin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×