Körfubolti

Ítalía vann ó­væntan og mikil­vægan sigur á Spáni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik Ítalíu og Spánar.
Úr leik Ítalíu og Spánar. EPA/GEORGI LICOVSKI

Ítalía er í frábærum málum í C-riðli EM karla í körfubolta eftir mikilvægan sigur á Spáni í kvöld. Frakkland stöðvaði sigurgöngu Póllands í D-riðli.

Ítalía og Spánn eru í harðri baráttu um að komast upp úr C-riðli og ljóst að sigurvegari kvöldsins yrði í góðri stöðu fyrir lokaumferðina. Fór það svo að Ítalía vann eftir hörkuleik, lokatölur 67-63. 

Önnur úrslit í riðlinum voru þau að Bosnía og Hersegóvína vann Grikkland með þriggja stiga mun, lokatölur 80-77. Georgía vann þá gríðarlega sannfærandi sigur á Kýpur, lokatölur 93-61.

Staðan í riðlinum er þannig að Grikkland og Ítalía hafa unnið þrjá leiki og tapað einum. Spánn, Georgía og Bosnía og Hersegóvína hafa öll unnið tvo og tapað tveimur á meðan Kýpur hefur ekki enn unnið leik.

Í B-riðli sá Frakkland til þess að Pólland tapaði sínum fyrsta leik, lokatölur 83-76. Guerschon Yabusele, leikmaður New York Knicks í NBA-deildinni var allt í öllu í liði Frakklands. Hann skoraði 36 stig, tók fimm fráköst og gaf tvær stoðsendingar.  

Önnur úrslit í D-riðli voru þau að Ísrael marði Belgíu og Slóvenía lagði Ísland. Staðan í D-riðli er því þannig að Frakkland, Ísrael og Pólland hafa öll unnið þrjá leiki og tapað einum. Belgía hefur unnið einn og tapað þremur á meðan Ísland hefur ekki enn unnið leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×