Erlent

Kína sendir skila­boð til Banda­ríkjanna og Trump svarar um hæl

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það virðist fara vel á með leiðtogunum í gær.
Það virðist fara vel á með leiðtogunum í gær. Getty/Sergey Bobylev

„Mannkynið stendur í dag frammi fyrir valinu milli friðar eða stríðs, samtals eða átaka, ávinning eða tap beggja aðila,“ sagði Xi Jinping, forseti Kína, þegar hann ávarpaði 50 þúsund manns á Torgi hins himneska friðar í gær.

Þá fór fram stærsta hersýning sem Kínverjar hafa staðið fyrir en meðal viðstaddra voru Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu. Tilefnið var að 80 ár eru liðin frá endalokum seinni heimstyrjaldarinnar, sem Kínverjar fagna sem sigri á Japan.

Erlendir miðlar hafa birt fjölda mynda af hlýlegum samskiptum leiðtoganna þriggja en fagnaðarfundir þeirra þykja skýr skilaboð til vesturveldanna um annað og öflugt bandalag. Xi sagði einnig beint út að Kína myndi aldrei beygja sig fyrir öðrum; Kína væri óstöðvandi.

Donald Trump Bandaríkjaforseti tjáði sig um sjónarspilið á Truth Social í gær, óskaði Kínverjum til hamingju en skaut jafnframt á þremenningana. „Vinsamlegast berið Vladimir Pútín og Kim Jong-un kveðju mína, er þið plottið gegn Bandaríkjunum,“ sagði hann á samfélagsmiðli sínum.

Þetta mun vera í fyrsta sinn sem Kim Jong-un sést með bæði Pútín og Xi á sama tíma en sérfræðingar segja að það verði forvitnilegt að fylgjast með því hvort leiðtogarnir muni eiga formlegan fund. Slíkur fundur yrði bein ögrun við Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×