Erlent

Fimm­tán látnir hið minnsta eftir að kláfur fór út af sporinu

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Barn er á meðal hinna látnu.
Barn er á meðal hinna látnu. AP/Armando Franca

Fimmtán hið minnsta eru látin og átján særðir eftir að hinn frægi Gloria-kláfur í Lissabon í Portúgal fór út af sporinu og skall á byggingu. Fimm hinna særðu eru sögð alvarlega særð og hin þrettán, þeirra á meðal barn, eru sögð hafa hlotið minniháttar áverka.

Portúgalski miðillinn Observador greinir frá því að ein línanna hafi losnað sem varð til þess að annar tveggja vagna þaut niður brekku, fór út af sporinu og skall utan í byggingu.

Gloria-kláfurinn er eitt kennileita Lissabonborgar og tengir saman gömlu miðborgina og Bairro Alto-hverfið. Hverfið síðarnefnda er uppi á holtinu sem gnæfir yfir gömlu borginni og hefur kláfurinn stytt borgarbúum leiðina hverfanna á milli frá árinu 1885. Kláfurinn er einnig gríðarlega vinsæll meðal ferðamanna.

Enn er óljóst hvað nákvæmlega olli slysinu og ýmislegt enn á huldu um aðstæður á vettvangi. Marcelo Rebelo de Sousa, forseti Portúgals, vottaði aðstandendum hinna látnu samúð sína og kallaði eftir því að upplýst yrði um orsökin sem allra fyrst í ávarpi til þjóðarinnar.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að á meðal hinna látnu séu portúgalskir og erlendir ríkisborgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×