Innlent

Sérsveitin vaktaði heimili Snorra og fjöl­skyldu í nótt

Árni Sæberg skrifar
Öll spjót hafa staðið á Snorra Mássyni síðan á mánudag.
Öll spjót hafa staðið á Snorra Mássyni síðan á mánudag. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra höfðu eftirlit með heimili Snorra Mássonar alþingismanns í nótt, í kjölfar þess að heimilisfangs hans var gert opinbert á samfélagsmiðlum.

Líkt og ítarlega hefur verið fjallað um síðustu daga hefur Snorri sætt harði gagnrýni síðan hann mætti Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, verkefnastýru hjá Samtökunum '78, í Kastljósi á Rúv á mánudag, þar sem umræðuefnið var bakslag í málefnum hinsegin fólks.

Heimildir Vísis herma að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit Ríkislögreglustjóra hafi viðhaft sérstakt eftirlit með heimili Snorra í nótt í tengslum við umræðuna sem spunnist hefur um hann. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá. Snorri segist í samtali við Vísi ekki ætla að tjá sig um málið.

„Frábært, hópferð!!“

Notandi samfélagsmiðilsins Tiktok birti myndskeið á þriðjudag þar sem kallað var eftir upplýsingum um heimilisfang Snorra, þar sem hann býr með eiginkonu og þremur börnum.

„Smá pæling eftir Kastljós gærkvöldins, hvar býr Snorri Másson? Veit það einhver? Ég er bara að pæla, mig langar bara að tala við hann, ég er bara að pæla,“ sagði viðkomandi.

Aðrir notendur svöruðu og sögðust myndu koma með í „smá heimsókn“ ef einhver gæti upplýst um heimilisfangið. Þegar heimilisfangið var birt sagði notandinn sem birti myndskeiðið „Frábært, hópferð!!“

Ekki liggur fyrir hvort eftirlit lögreglu hafi verið að hennar frumkvæði eða hvort óskað hafi verið eftir því. Samkvæmt upplýsingafulltrúa Ríkislögreglustjóra tjáir embættið sig ekki um öryggisráðstafanir einstaklinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×