Innlent

Ó­sáttur við skattana og hefði viljað loka fjárlagagatinu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis hefði viljað sjá ríkisstjórnina ganga alla leið og loka fjárlagagatinu.
Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis hefði viljað sjá ríkisstjórnina ganga alla leið og loka fjárlagagatinu.

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis varð fyrir djúpum vonbrigðum með framkomið fjárlagafrumvarp. Þrátt fyrir fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að skattar verði ekki hækkaðir þá hafi hann komið auga á skattahækkanir upp á 28 milljarða eftir grúsk í frumvarpinu. Þá hefði hann viljað sjá ríkisstjórnina loka fjárlagagatinu.

Ekki eru allir sannfærðir um ágæti fjárlagafrumvarpsins en Guðlaugur Þór Þórðarson fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd Alþingis er einn þeirra sem ekki fannst mikið til frumvarpsins koma. Hann var í hádegisfréttum Bylgjunnar beðinn um segja hvernig honum litist á frumvarpið, svona við fyrstu sýn. Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti efni nýs fjárlagafrumvarps nú í morgun. Hægt er að kynna sér efni þess hér: 

„Þetta eru auðvitað gríðarleg vonbrigði, þvert á það sem forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar hafa sagt þá kemur í ljós að það er nokkurn veginn búið að loka gatinu, síðasta ríkisstjórn gerði það. Það bara kemur fram að staðan er 19 milljarðar í halla og gæti lokast núna bara þegar þetta er allt saman gert upp og þeir ná samt sem áður ekki að klára verkið og því miður þá eru útgjöldin að vaxa umfram það sem gert er ráð fyrir í þeirra eigin fjármálaáætlun og að auki þó að ekkert komi nú af þessu fram í kynningunni enda er þetta væntanlega grynnsta kynning sem hefur verið á fjárlagafrumvarpi nokkurn tímann þá er gert ráð fyrir skattahækkunum á almenning þvert á það sem lofað var.“

Guðlaugur bendir á að til dæmis á blaðsíðum 120-121 í frumvarpinublasi við aukinn skattur á almenning.

„Þar er gert ráð fyrir því að hækka tekjuskatt á einstaklinga með samsköttuninni [innsk. blm. afnám samnýtingar þrepa í tilviki hjóna og sambýlisfólks], það er gert ráð fyrir því að hækka skatta á ökutæki og eldsneyti, það er gert ráð fyrir því að hækka skatta á raforkunotkun almennings og sömuleiðis þá er gengið harðar fram þegar kemur að arðgreiðslum á fyrirtækjum. Þannig að það er af nógu að taka en beinar skattahækkanir koma fram upp á 28 milljarða.“

Hefði verið hægur vandi að loka gatinu

Hann segir að síðasta ríkisstjórn hafi fegið gríðarleg áföll í fangið, Covid-19 faraldurinn og jarðhræringar á Reykjanesi hafi kostað ríkissjóð mörg hundruð milljarða.

„Þessi ríkisstjórn þarf ekki að eiga við það og guð gefi að það verði ekki og í ofanálag þvert á það sem þeir hafa sagt, að það bara kemur í ljós í þeirra eigin gögnum að það er komið nokkurn veginn komið jafnvægi í rekstri ríkisins 19 milljarðar af 1500 milljörðum er nú mjög lítið. Þannig að það ætti að vera hægur vandi að ná hallalausum fjárlögum.“

Hér getur þú nálgast fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×