Innlent

Óásættan­legt að al­mennir starfs­menn séu beittir óeðli­legum þrýstingi

Eiður Þór Árnason skrifar
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðafirði. 
Álver Alcoa Fjarðaáls á Reyðafirði.  Vísir/Arnar

Afl Starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslands hafa fengið ábendingar um að stjórnendur álvers Alcoa á Reyðarfirði hafi rætt við óbreytta starfsmenn um kjaradeilu verkalýðsfélaganna við fyrirtækið. Viðræður hafa gengið illa og stendur til að greiða atkvæði um verkfall starfsmanna.

Verkalýðsfélögin tvö segja að þeim hafi borist „vísbendingar um að félagsfólki okkar hafi verið beitt óeðlilegum þrýstingi á vinnustaðnum.“ Það sé óásættanlegt að venjulegt starfsfólk upplifi þrýsting eða afskipt sem geti haft áhrif á afstöðu þess í deilunni.

Greint er frá þessu í tilkynningu frá Afli Starfsgreinafélagi og Rafiðnaðarsambandi Íslands.

„Við krefjumst þess að þessum afskiptum verði hætt strax og að stjórnendur einbeiti sér frekar að því að koma að samningaborðinu með tilboð sem felur í sér sömu launahækkanir og tryggðar hafa verið í öðrum stóriðjum á Íslandi á næstu árum.“

Kjaraviðræður Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði við Afl starfsgreinafélag og Rafiðnaðarsamband Íslands hafa staðið yfir frá því í desember án árangurs. Vegna þessa hafa um 400 starfsmenn álversins verið án starfssamnings síðan í febrúar.

Undirbúningur að atkvæðagreiðslu um verkfall stendur nú yfir og á formaður Afls von á því að niðurstaða liggi fyrir innan tveggja vikna.

Fréttin er í vinnslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×