Enski boltinn

Postecoglou að taka við Forest

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ange Postecoglou vann Evrópudeildina með Spurs en var rekinn skömmu síðar. Nú mun hann stýra Nottingham Forest í sömu keppni í vetur.
Ange Postecoglou vann Evrópudeildina með Spurs en var rekinn skömmu síðar. Nú mun hann stýra Nottingham Forest í sömu keppni í vetur. Catherine Ivill - AMA/Getty Images

Ástralinn Ange Postecoglou verður nýr stjóri Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni eftir uppsögn Nuno Espirito Santo. Þessu greina breskir miðlar frá í morgun.

Forest tilkynnti um uppsögn Nuno í morgun en andað hefur köldu milli hans og Evangelos Marinakis, eiganda félagsins, síðustu vikur. Nuno átti sérlega slæmt samband við Brasilíumanninn Edu, sem Marinakis réði sem yfirmann knattspyrnumála í sumar.

Nuno hafði tjáð sig opinberlega um stöðuna, þar sem hann kvartaði yfir stöðunni á leikmannamarkaðnum í sumar, að Marinakis hefði breyst og að þeir væru ekki eins nánir og áður.

Postecoglou mun taka við liðinu og búist við tilkynningu frá Nottingham Forest þess efnis á næsta sólarhringnum samkvæmt The Athletic. Hann taki með sér stóran hluta starfsteymis síns sem starfaði með Ástralanum hjá Tottenham Hotspur.

Postecoglou er sextugur og stýrði Tottenham til Evrópudeildartitils í júní, fyrsta stóra titils félagsins í 17 ár, en var rekinn frá félaginu síðar í sama mánuði. Tottenham gekk illa í ensku úrvalsdeildinni í fyrra og hafnaði í 17. sæti.

Brentford hafði samband við Postecoglou eftir að Thomas Frank yfirgaf félagið til að taka við starfi Ange hjá Tottenham og sömuleiðis átti hann viðtal hjá Al Ahli í Sádi-Arabíu. Nú er hins vegar útlit fyrir að hann taki við hjá Forest.

Postecoglou er af grískum ættum og þjálfaði Panachaiki í Grikklandi um tíma. Marinakis, eigandi Forest, er sjálfur grískur og sagður hrifinn af því að ráða inn hálfgrískan mann í starfið.

Nottingham Forest lenti í sjöunda sæti á síðustu leiktíð og mun spila í Evrópudeildinni í vetur, eftir að Crystal Palace var sent niður úr þeirri keppni í Sambandsdeildina. Það er í fyrsta skipti í 30 ár sem Skíriskógarar taka þátt í Evrópukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×