Innherji

„Allt í boði“ með ein­földun reglu­verks sem minnkar veru­lega þróunar­kostnað

Hörður Ægisson skrifar
Róbert Wessman, forstjóri og aðaleigandi Alvotech. Hann segir félagið vera með verðmætustu lyfjapípu allra félaga á markaði með líftæknilyfjahliðstæður.
Róbert Wessman, forstjóri og aðaleigandi Alvotech. Hann segir félagið vera með verðmætustu lyfjapípu allra félaga á markaði með líftæknilyfjahliðstæður.

Áform eftirlitsstofnana beggja vegna Atlantshafsins um að einfalda regluverk og kröfur þegar kemur að klínískum rannsóknum á líftæknilyfjum mun minnka verulega þróunarkostnað og leiða til þess að það verður arðbærara að fara í þróun á mun fleiri hliðstæðum en áður, að sögn forstjóra Alvotech. Hann er afar gagnrýninn á einkaleyfakerfið í Bandaríkjunum, sem búi til hindranir fyrir innkomu líftæknilyfjafélaga, og þá skaði það mjög samkeppnisumhverfið hvernig framleiðendur frumlyfja fái að „læsa markaðinum“ í aðdraganda þess að einkaleyfi þeirra rennur út.

Þær breytingar sem eru að verða á kröfum hjá lyfjaeftirlitsstofnunum í Bandaríkjunum og Evrópu munu þýða að ekki verður lengur þörf á því að fara með þróun líftæknilyfja í gegnum fasa-3 klínískar samanburðarrannsóknir til að fá samþykki fyrir markaðsleyfi. Í ítarlegu viðtali sem birtist við Róbert Wessman, forstjóra, stjórnarformann og aðaleigenda Alvotech, í Genenerics Bulletin fyrr í vikunni útskýrir hann meðal annars hvaða áhrif þetta muni hafa fyrir líftæknilyfjafélög á borð við Alvotech.

Félagið er með alla virðiskeðjuna – rannsóknir, þróun og framleiðslu – á einni hendi hjá sér sem, að sögn Róberts, styrki samkeppnistöðu Alvotech en það er núna að setja af stað þróun á fjórum til sex nýjum lyfjum á hverju ári. Lyfjapípa félagsins telur alls 28 lyf, sem Róbert tekur fram að hann telji að sé sú „verðmætasta“ sem þekkist á heimsvísu, og er um helmingur þeirra kominn langt á veg í rannsóknarferlinu. Hann nefnir að Alvotech sé „sérstaklega spennt“ fyrir því að koma á markað með hliðstæðu við Entyvio en félagið sé þar með forskot á aðra og verði fyrstir á markaðinn.

Þetta væri ólöglegt í flestum löndum heims, nema í Bandaríkjunum.

Í viðtalinu segir Róbert að Alvotech hafi búist við þessum breytingum í átt að einfaldara skráningarferli fyrir líftæknilyfjahliðstæður fyrir um tveimur árum. Þær muni hafa verulegan sparnað í för með sér en þróun nýrra hliðstæðna tekur mörg ár og krefst hundruð milljóna dala fjárfestingar. Þannig hafi þróun á hliðstæðu Alvotech við Humira, fyrsta lyf félagsins sem fór á markað og er með útskiptanleika, kostað um 250 milljónir dala áður en það fékk markaðsleyfi.

Með einföldun á regluverkinu sem getur stytt þróunarferlið um eitt til tvö ár þá skapast hins vegar grundvöllur til að ráðast í þróun margra annarra líftæknilyfjahliðstæðna sem áður þóttu ekki arðbærar. „Það er í raun allt í boði,“ (e. everything is up for grab) segir hann. „Það eru fjölmörg líftæknilyf sem eru komin af einkaleyfi, án nokkurrar samkeppni. Nú mun það breytast.“

Seinka innkomu nýrra keppinauta á markaðinn

Þó að kröfurnar lækki kostnað og stytti ferlið, undirstrikar hann að tæknileg flækjustig við að þróa hliðstæður sé enn mikið og aðkoma nýrra félaga inn á markaðinn því erfið. Kostnaðurinn sé enn að lágmarki um 40 um 60 milljónir dala á hverja vöru og þróun taki 5 til 7 ár, auk margra ára og hundruð milljóna dala í uppbyggingu á verksmiðju.

Þá ræðir Róbert í viðtalinu umhverfið í Bandaríkjunum þegar kemur að einkaleyfum og er afar gagnrýninn á það kerfi. Hann bendir á að stóru lyfjafyrirtækin sem séu framleiðendur á frumlyfjum, eins og í tilfelli Humira, hafi kerfisbundið sótt um hundruð einkaleyfa á sama lyfið til að tefja samkeppni.

Þannig hafi Humira, sem var á sínum tíma mest selda lyf í heimi, ekki einu sinni verið þróað af framleiðenda þess, heldur keypt frá þýsku fyrirtæki. „Síðan sóttu þeir um yfir 200 einkaleyfi mörgum árum eftir að lyfið kom á markað – og um 150 voru samþykkt. Þetta voru ekki nýjar uppfinningar,“ útskýrir Róbert, heldur leið til að seinka innkomu nýrra keppinauta á markaðinn.

Það eru fjölmörg líftæknilyf sem eru komin af einkaleyfi, án nokkurrar samkeppni. Nú mun það breytast.

Þessar aðferðir hafi mikinn kostnað í för með sér fyrir líftæknilyfjafélög sem neyðast til að verja sig fyrir dómsmálum í Bandaríkjunum. „Það er ekki hægt að ætlast til að fyrirtæki eyði 50 til 100 milljónum dala í málarekstur á móti framleiðenda frumlyfsins sem hefur alltaf yfirhöndina.“

Að mati Róberts er lausnin augljós: bandaríska einkaleyfisstofnunin þurfi að setja strangari reglur, svipaðar þeim sem gilda í Evrópu. „Ef þetta væri gert á sambærilegan hátt og hér, þá væru þessi vandamál ekki til staðar.“

„ Væri ólöglegt í flestum löndum heims, nema í Bandaríkjunum“

Annað vandamál á bandaríska markaðinum, að sögn Róberts, sé að framleiðendur frumlyfsins noti afslætti og samninga um að kaupandinn skuldbindi sig um að færa sig ekki yfir í hliðstæður í eitt eða tvö ár til að „læsa“ markaðinum í aðdraganda þess að einkaleyfið er að renna út. „Þetta væri ólöglegt í flestum löndum heims, nema í Bandaríkjunum,“ segir Róbert.

Niðurstaðan af þessum viðskiptaháttum sé sú að bandaríska ríkið, sem greiðir beint eða óbeint fyrir 30um 40 prósenta allra lyfja í landinu, beri kostnaðinn. „Þetta er algjörlega óþarft og óhagkvæmt,“ segir hann.

Þá er Róbert spurður um hlutverk innkauparisana (PBM) – þrjú félög fara með um 80 prósent af öllum markaðinum – en vægi þeirra hefur aukist mjög í bandaríska lyfjakerfinu undanfarin ár, meðal annars þegar kemur að því hvaða lyf fáist endurgreitt af tryggingarfélögum og þá um leið nái fótfestu á markaðinum. Hann segir innkaupafélögin gegna lykilhlutverki en kerfið gæti verið skilvirkara og gegnsærra.

Í fyrra gerði Alvotech er sérleyfissamning við Quallent Pharmaceuticals, dótturfélag Cigna, um að bjóða upp á sölu á Simlandi-hliðstæðuna við Humira þar sem sjúklingar geta nálgast hana án þess að þurfa leggja neitt fyrir kaupunum. Róbert bendir á að þessi leið hafi verið algeng hjá líftæknifélögum með hliðstæður við Humira en hann hafi ekki trú á því að slíkir sérleyfissamningar séu það sem koma skal í framtíðinni.

Það er ekki hægt að ætlast til að fyrirtæki eyði 50 til 100 milljónum dala í málarekstur á móti framleiðenda frumlyfsins sem hefur alltaf yfirhöndina.

Þegar rætt er um verðstefnu lyfjafyrirtækjanna er rifjað upp í viðtalinu löggjöf frá árinu 2022 um aðgerðir til að minnka verðbólgu (e. The Inflation Reduction Act) en samkvæmt henni var Stelara-lyfið, önnur hliðstæða Alvotech á markaðinn, sett á lista sem heimilaði heilbrigðistryggingarkerfinu þar í landi að setja tiltekið lágmarksverð. „Það var of lítið og of seint,“ segir Róbert. Það hafi engu máli skipt að frumlyfið hafi lækkað í verði, enda hafi komið inn hliðstæður við Stelara sem hafi kostað mun minna.

Óraunhæft að færa framleiðsluna til Bandaríkjanna

Meira máli skipti, að sögn forstjóra Alvotech, sú staðreynd að Bandaríkin séu að greiða margfalt hærra verð fyrir lyf en Evrópa (e. Most Favored Nation approach to pharma pricing).

„Við vitum öll að Bandaríkin eru að greiða, beint og óbeint, fyrir alla nýsköpun og rannsóknir og þróun í heiminum,“ sagði hann. „Sum lyf eru tífalt dýrari í Bandaríkjunum en í Evrópu, og ef [MFN-kerfið] verður tekið upp – sem virðist vera í brennidepli – gæti það lækkað kostnaðinn í Bandaríkjunum, en á móti hækkað verðið í öðrum heimshlutum. Þannig mun verðlagning stóru lyfjafyrirtækja framvegis beinast að því að skapa meira jafnvægi milli verðlagningar annars staðar í heiminum, sérstaklega í Evrópu, og Bandaríkjanna.“

„Ég held því að allt kerfið gæti tekið breytingum,“ spáir Róbert – en bætti um leið við að „fyrir alþjóðleg fyrirtæki eins og Alvotech sé það ekki endilega slæmt. Við seljum í yfir 90 löndum og í þeim löndum sem við erum með starfsemi náum við til 98 prósent af allri sölu líftæknilyfja.“ Nettó áhrifin af slíkum breytingum yrðu því ekki miklar fyrir Alvotech, sagði hann. „Því nýsköpun verður að halda áfram, og hún mun áfram kosta sitt, sem þýðir áframhaldandi fjárfestingar. Þetta verður því tilfærsla á virði milli landa.“

Þá ræðir Róbert einnig í viðtalinu um tollastefnu Trump en settir voru á 15 prósent tollar á innflutning allra lyfja frá Evrópu (og Íslandi) til Bandaríkjanna. Forstjóri Alvotech segir að það sé óraunhæft að slíkar aðgerðir muni skila sér í því að framleiðslan færist yfir til Bandaríkjanna.

Við vitum öll að Bandaríkin eru að greiða, beint og óbeint, fyrir alla nýsköpun og rannsóknir og þróun í heiminum.

Fyrirtæki sem eru að selja samheitalyf eru „starfandi með afar þunna framlegð, og að leggja á gríðarlega tolla myndi setja margar sameindir í hættu í Bandaríkjunum.“ En þegar kæmi að framleiðslu á líftæknilyfjahliðstæðum „og þeirri hugsun að fyrirtæki ættu hugsanlega að byggja verksmiðjur í Bandaríkjunum,“ benti Wessman á að „það tæki mörg ár – ekki eitt eða tvö ár heldur mörg – að reisa þær. Þetta er miklu flóknara en framleiðsla smásameindalyfja, bæði að fá samþykki og byggja innviði. Þetta er gríðarlegt verkefni sem tekur mörg ár.“

Varðandi samheitalyf sagði hann að þau væru „starfandi með afar þunna framlegð, og að leggja á gríðarlega tolla myndi setja margar sameindir í hættu í Bandaríkjunum.“ En þegar kæmi að framleiðslu líftæknilyfjaafrita „og þeirri hugsun að fyrirtæki ættu hugsanlega að byggja verksmiðjur í Bandaríkjunum,“ benti Wessman á að „það tæki mörg ár – ekki eitt eða tvö ár heldur mörg – að byggja slíkt upp. Þetta er miklu flóknara en framleiðsla smásameindalyfja, bæði að fá samþykki og byggja innviði. Þetta er gríðarlegt verkefni sem tekur mörg ár.“

Gæti skilað Bandaríkjunum tugum milljarða dala

Í stað þess að setja á tolla og þrýsta á að framleiðslan færist til Bandaríkjanna segir Róbert að „miklu skilvirkari leið,“ væri að beina sjónum að stóru lyfjafyrirtækjunum sem hefðu með ásetningi flutt starfsemina úr landi.

Bandarísk stjórnvöld hefðu heimilað verðlagningu sem er margfalt hærri en hvar sem er í heiminum. En á sama tíma væru mörg fyrirtæki að færa hagnaðinn úr landi, einkum með því að færa hugverkaréttindi til annars lands, flytja starfsmenn þangað og byggja upp eitthvað sem leit út eins og raunveruleg starfsemi.

„Áhrifaríkasta og einfaldasta leiðin“ fyrir Bandaríkin til að endurheimta þetta tap, útskýrir Róbert, og „sem er miklu arðbærara en að bíða í þrjú til fjögur ár eftir fjárfestingu – sem vissulega er hægt líka – væri einfaldlega að miða á þessi lönd með gríðarlegum tollum og vinda ofan af allri þessar starfsemi.“ Þetta gæti skilað Bandaríkjunum tugum milljörðum dala í einu vetfangi.


Tengdar fréttir

Sam­keppnis­staða Al­vot­ech verði „enn sterk“ þótt verð á frum­lyfjum muni lækki

Ef áform Trump um að knýja í gegn tugprósenta lækkun á verði lyfja vestanhafs mun raungerast ætti það að sama skapi að leiða til verðhækkana á frumlyfjum í Evrópu og öðrum löndum, að sögn forstjóra Alvotech, og styrkja þá samkeppnisstöðu félagsins enn frekar utan Bandaríkjanna. Hann telur að útspil Bandaríkjaforseta muni ekki hafa áhrif á boðaða skráningu Alvotech í Svíþjóð í næstu viku og vegna „mikils áhuga“ séu væntingar um að stórir norrænir fjárfestar muni bætast við hluthafahópinn eftir að félaginu verður fleytt á markað þar í landi.

Tekjurnar af Stelara féllu um þriðjung með inn­komu líftækni­lyfja í Evrópu

Framleiðandi frumlyfsins Stelara, eitt mesta selda lyf í heimi, sá sölutekjur sínar skreppa saman um tugi prósenta utan Bandaríkjanna í lok ársins 2024 þegar keppinautar á borð við Alvotech komu inn á markaðinn í Evrópu með líftæknilyfjahliðstæður. Eftir mestu er hins vegar að slægjast á Bandaríkjamarkaði sem opnaðist í byrjun ársins fyrir hliðstæður við Stelara en hversu stóran bita þeim tekst að fá af kökunni mun meðal annars ráðast af verðstefnu Johnson & Johnson þegar nýir leikendur mæta á sviðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×