Enski boltinn

Skiptir til Chelsea frá fé­lagi með sömu eig­endur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Á leið til Chelsea.
Á leið til Chelsea. EPA/Liselotte Sabroe

Enska knattspyrnufélagið Chelsea hefur tilkynnt að félagið hafi náð samkomulagi við framherjann Emanuel Emegha. Mun hann ganga til liðs við félagið á næsta ári. Emegha spilar í dag fyrir Strasbourg í Frakklandi, liði með sömu eigendur og Chelsea.

Hinn 22 ára gamli Emegha hefur náð samkomulagi við Chelsea og mun skrifa undir sjö ára samning á næsta ári. Þangað til mun hann hins vegar halda áfram að spila í Frakklandi.

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að þessi hollenski U-21 árs landsliðsmaður hafi hafnað liðum í ensku úrvalsdeildinni sem og liðum í Meistaradeild Evrópu til að ganga í raðir Chelsea.

Þar segir einnig að yfirvonandi félagaskipti Emegha til félagsins hafi verið ástæðan fyrir því að Chelsea festi ekki kaup á nýjum framherja þegar ljóst var að Liam Delap yrði frá í 10-12 vikur vegna meiðsla.

Emegha, sem er fyrirliði Strasbourg, hefur skorað 23 mörk í 57 leikjum fyrir félagið. Kaupin á honum undirstrika tengingu liðanna sem eru undir sama eignarhaldi.

Ben Chilwell skipti til að mynda frá Chelsea til Strasbourg á lokadegi félagaskiptagluggans, hann var þá sjötti leikmaðurinn til að skipa milli liðanna í þeim glugga. Þar af eru þrír á láni hjá Strasbourg frá Chelsea en samkvæmt regluverki FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins, mega lið mest lána þrjá leikmenn í eitt og sama liðið.

Engar reglur eru um kaup og sölur leikmanna milli félaga undir sama eignarhaldi svo lengi sem kaupverðið endurspegli verðmæti leikmannanna á markaðnum.

Chelsea er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með sjö stig að loknum þremur umferðum. Strasbourg er í 6. sæti frönsku deildarinnar með sex stig að loknum jafn mörgum umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×