Fótbolti

Gæti spilað í kvöld en þarf að mæta í réttar­sal í fyrra­málið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thomas Partey er ákærður fyrir fimm nauðganir.
Thomas Partey er ákærður fyrir fimm nauðganir. epa/NEIL HALL

Thomas Partey og félagar hans í Villarreal mæta Tottenham í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Á morgun þarf Partey svo að mæta í réttarsal.

Partey hefur verið ákærður fyrir fimm nauðganir og eitt kynferðisbrot sem áttu að hafa átt sér stað árin 2021 og 2022.

Hinn 32 ára Partey yfirgaf Arsenal í sumar eftir fimm ára í herbúðum liðsins og gekk í raðir Villarreal.

Spænska liðið sækir Tottenham heim í 1. umferð deildarkeppni Meistaradeildarinnar í kvöld og búast má við að Partey fái kaldar kveðjur á Tottenham leikvanginum. Á morgun mætir Partey svo fyrir rétt í London til að svara fyrir ákærurnar.

Á blaðamannafundi í gær vildi Marcelino, knattspyrnustjóri Villarreal, ekki gefa upp hvort Partey myndi spila leikinn gegn Spurs en sagði að miðjumaðurinn væri fullfær um það.

Marcelino var orðinn þreyttur á tíðum spurningum um Partey og vildi beina talinu að fótboltanum sjálfum.

„Við tölum meira um Thomas en leikinn. Við erum að túlka hluti og tala um leikmann sem gæti verið fullkomlega saklaus. Við erum að spila fótboltaleik á morgun [í dag] þar sem fótboltinn er það mikilvægasta,“ sagði Marcelino.

Partey kom til Arsenal frá Atlético Madrid 2020. Hann lék 167 leiki fyrir Skytturnar og skoraði níu mörk.

Leikur Tottenham og Villarreal hefst klukkan 19:00 og verður sýndur beint á Sýn Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×