Fótbolti

Tvenna Thuram tryggði Inter sigur og PSG fór létt með Atalanta

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Thuram skoraði bæði mörk Inter eftir stoðsendingar Calhanoglu.
Thuram skoraði bæði mörk Inter eftir stoðsendingar Calhanoglu. Rene Nijhuis/MB Media/Getty Images

Marcus Thuram skoraði bæði mörk Inter í 2-0 sigri á útivelli gegn Ajax og PSG vann öruggan 4-0 sigur gegn Atalanta í fyrstu umferð Meistaradeildarinnar.

Marquinhos kom heimamönnum í París yfir eftir aðeins þrjár mínútur og Khvicha Kvaratskhelia bætti við skömmu fyrir hálfleik. PSG hefði getað farið þremur mörkum yfir inn í hálfleikinn en Bradley Barcola klúðraði vítaspyrnu.

Hann bætti upp fyrir það með því að leggja upp mark fyrir Nuno Mendes, sem þurfti þó að gera heilmikið sjálfur og kláraði færið vel. Goncalo Ramos negldi svo smiðshöggið með fjórða markinu í uppbótartíma.

Marcus Thuram átti stórleik fyrir Inter í sigrinum gegn Ajax. Hann virtist hafa fiskað vítaspyrnu en VAR herbergið breytti dómnum.

Það kom þó ekki að sök því Thuram skoraði skömmu síðar og Inter fór marki yfir inn í hálfleikinn. Hann bætti svo við öðru marki í upphafi seinni hálfleiks og þar við sat.

Bæði mörkin voru skoruð með skalla eftir fyrirgjafir Hakan Calhanoglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×