Erlent

Bilun hjá fjar­skipta­fyrir­tæki sögð hafa valdið fjórum dauðs­föllum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Optus er annað af tveimur stærstu fjarskipafyrirtækjum Ástralíu.
Optus er annað af tveimur stærstu fjarskipafyrirtækjum Ástralíu. Getty

Fjarskiptafyrirtækið Optus í Ástralíu sætir harðri gagnrýni eftir bilun sem varð til þess að hundruðir einstaklinga gátu ekki hringt í neyðarlínuna í margar klukkustundir.

Bilunin er talin hafa valdið fjórum dauðsföllum.

Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem bilun af þessu tagi kemur upp hjá fyrirtækinu, þar sem fólk nær ekki sambandi við neyðarlínuna. Optus sætir nú rannsókn af hálfu eftirlitsaðila vegna málsins og kallað hefur verið eftir afsögn forstjórans.

Optus er annað af tveimur stærstu fjarskiptafyrirtækjum Ástralíu.

Bilunin átti sér stað í síðustu viku og varð til þess að um 600 manns gátu ekki náð sambandi við neyðarlínuna, á þrettán klukkustunda tímabili. Almenningi var hins vegar ekki gert viðvart um bilunina né stjórnvöldu, fyrr en eftir að búið var að laga hana. 

Stephen Rue, forstjóri Optus, viðurkenndi að fyrirtækið hefði ekki vitað af biluninni í nokkrar klukkustundir, þrátt fyrir að fjöldi notenda hefði reynt að láta vita. Athugasemdirnar hefðu ekki verið höndlaðar eins og vera bar.

Hét hann því að gripið yrði til aðgerða til að tryggja að þetta gerðist ekki aftur en það vekur athygli að þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem bilun hjá fyrirtækinu verður til þess að fólk nær ekki sambandi við neyðarlínuna.

Það atvik átti sér stað árið 2023 og varð til þess að 2.145 símtöl í neyðarlínuna voru ekki tengd. Fyrirtækið var í kjölfarið sektað um tæpan milljarð króna, meðal annars fyrir að athuga ekki með 369 viðskiptavini eftir á.

Fjarskiptamálaráðherrann Anika Wells sagði í morgun að fjarskiptafyrirtækin hefðu enga afsökun hvað varðaði aðgengi fólks að neyðarlínunni. Hún hefði rætt við Rue, sem ætti að segja af sér. Atvikið myndi hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir Optus.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×