Enski boltinn

Segir Man. City hafa verið beitt ósann­girni fyrir stór­leikinn

Sindri Sverrisson skrifar
Bernardo Silva í baráttunni við Gabriel í gær.
Bernardo Silva í baráttunni við Gabriel í gær. Getty/Marc Atkins

Bernardo Silva er afar óánægður með það misræmi sem var á milli aðdraganda stórleiks Arsenal og Manchester City í gær, hjá liðunum tveimur. Hann kallar eftir heilbrigðri skynsemi þeirra sem koma að því að velja leikdaga í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Arsenal og City gerðu 1-1 jafntefli í gær í leik liða sem ætla sér að berjast um titilinn í vetur. Silva vill meina að aðstæður hafi hins vegar verið ósanngjarnar fyrir City í ljósi þess að liðið spilaði við Napoli í Meistaradeild Evrópu á fimmtudagskvöld, meira en 50 klukkutímum eftir að Arsenal spilaði við Athletic Bilbao í sömu keppni.

„Ég vil benda á þetta vegna þess að við töpuðum ekki. Ef við hefðum tapað þá myndi ég ekki segja neitt. En staðreyndin er sú að það er ekki hægt að láta okkur koma í einn mikilvægasta leik tímabilsins þar sem hitt liðið fær svona forskot hvað varðar hvíld,“ sagði Silva við Manchester Evening News.

„Það er ekki sanngjarnt að spila svona leik við þessar aðstæður. Það er ekki réttlátt,“ sagði Silva.

„Þeir fengu fimm daga og við fengum tvo og hálfan dag, fyrir einn mikilvægasta leikinn. Þetta má ekki gerast. Mér leið ekki fullkomlega að spila svona og fólk sem hefur ekki spilað á hæsta stigi veit ekki hvernig er að spila svona leik,“ sagði Silva.

Hann kveðst vonast til þess að breytingar verði gerðar og liðum sýnd virðing í þessu sambandi en ætla má að hann tali fyrir daufum eyrum í ljósi fyrri fordæma. Enska úrvalsdeildin og Meistaradeild Evrópu eru ólíkir hagsmunaaðilar og taka ekki fullt tillit til þess hvað hentar leikmönnum hverju sinni.

„Dagskráin er eins og hún er og ég skil að við erum með ólíkar keppnir, og að UEFA, Úrvalsdeildin og rétthafar vilja skapa tekjur. Við erum alveg til í að spila á 3-4 daga fresti og erum vanir að spila 60 leiki á ári. En við köllum eftir heilbrigðri skynsemi því þetta er einn stærsti leikur tímabilsins,“ sagði Silva.

„Og þetta beinist ekki bara að okkur. Ég held að þeir séu ekkert að reyna að láta okkur tapa. Þetta gæti komið fyrir Arsenal eða Liverpool innan fárra mánaða,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×