Íslenski boltinn

Finnst ó­lík­legt að KR bjargi sér: „Þetta er orðið verra og verra og verra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR-ingar eru í erfiðri stöðu í Bestu deild karla.
KR-ingar eru í erfiðri stöðu í Bestu deild karla. vísir/diego

Sérfræðingar Stúkunnar eiga erfitt með að sjá KR koma sér upp úr fallsæti og finnst líklegt að liðið falli í næstefstu deild í fyrsta sinn síðan 1977.

KR tapaði fyrir KA, 4-2, í fyrsta leik sínum eftir tvískiptinguna í Bestu deild karla. Þegar fjórar umferðir eru eftir eru KR-ingar með 24 stig, einu stigi frá öruggu sæti.

Í Stúkunni í gær spurði Guðmundur Benediktsson sérfræðinga sína, þá Baldur Sigurðsson og Albert Brynjar Ingason, hvort eitthvað benti til þess að KR væri á leið upp úr fallsæti.

„Nei, alls ekki. Þeir eru bara komnir á þann stað að það er alveg sama þótt hann hefði farið í 5-4-1 í þessum leik á móti KA, það hefði samt alltaf verið erfiður leikur því sjálfstraustið er ekkert. Eins og Albert fór yfir; góður fyrri hálfleikur, vondur seinni hálfleikur. Það er líka búið að vera þannig í allt sumar. Eftir fyrstu 4-5 leikina hafa þeir aldrei náð að tengja saman heilar níutíu mínútur. Það kemur alltaf slæmur kafli og þá fá þeir á sig mark. Þeir eru jafnvel frábærir á köflum en núna er staðan orðin þannig að þetta er orðið verra og verra og verra,“ sagði Baldur.

Klippa: Stúkan - umræða um stöðu KR

„Það þarf svo lítið til, þeir eru svo brothættir, þannig ég sé það ekki gerast að þeir komist upp úr fallsæti. Það gæti endað þannig að þeir fari í úrslitaleik á móti Vestra í lokin og þá er þetta bara spurning um taugar. En eins og þetta lítur út núna eru þeir á mjög slæmum stað og mjög ólíklegt að þeir fari upp úr fallsæti.“

Sér þetta ekki enda vel

Sóknarsinnað upplegg Óskars Hrafns hefur verið mikið til umræðu í sumar en Albert benti á að KR hefði náð í síðustu stigin sín í leikjum þar sem liðið var aðeins varfærnara í sinni nálgun.

„Þegar maður horfir á hvaðan þessi síðustu stig hafa komið hjá þeim, þessi síðustu sjö stig, er það þegar liðið vék aðeins frá hugmyndafræðinni. Óskar var mjög ósáttur eftir sigurinn á móti Fram en þetta eru þessi sjö stig. Jafntefli á móti Vestra. Það var allt annað KR-lið en við höfum séð í flestöllum leikjum í sumar,“ sagði Albert.

„Sigurinn á móti Aftureldingu, ef maður notar tískuorðið þjást, þeir gerðu það síðustu tíu mínúturnar. Og svo þessi þrjú stig á móti Fram. Ef þeir ekki allavega aðeins til baka í það sér maður þetta ekkert enda vel hjá þeim.“

Næsti leikur KR er gegn ÍA á Akranesi á sunnudaginn. Skagamenn hafa unnið þrjá leiki í röð.

Umræðuna úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Upp­gjörið: KA - KR 4-2 | Akur­eyringar sendu Vestur­bæinga í fallsæti

KA svo gott sem gulltryggði veru sína í efstu deild með 4-2 sigri á KR á Greifavellinum í fyrstu umferð neðri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu. KR aftur á móti í fallsæti þegar fjórar umferðir eru eftir og áhyggjur Vesturbæinga minnka ekki. KR leiddi 2-1 í hálfleik en KA menn sneru taflinu við í þeim síðari og unnu sanngjarnan sigur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×