Erlent

Banda­ríkja­menn sagðir vilja Tony Blair við stjórn­völinn á Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Deildar meiningar ku vera uppi um ágæti þess að skipa Blair sem leiðtoga yfir Gasa.
Deildar meiningar ku vera uppi um ágæti þess að skipa Blair sem leiðtoga yfir Gasa. Getty/Leon Neal

Tvær tillögur liggja nú fyrir um framtíð Gasa, önnur studd af Bandaríkjastjórn og hin af Sameinuðu þjóðunum. Tillaga Bandaríkjamanna er sögð fela það í sér að Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, leiði bráðabirgðastjórn á Gasa.

Samkvæmt tillögunni myndi Blair fara fyrir Gaza International Transitional Authority (Gita), sem yrði æðsta stjórnvaldið á Gasa í allt að fimm ár. Palestínska heimastjórnin myndi ekki eiga aðkomu að Gita til að byrja með, heldur yrði skipuð sjö til tíu manna nefnd sem yrði skipuð fulltrúa Palestínumanna, fulltrúa Arabaríkjanna, háttsettum embættismanni Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum leiðtogum.

Aðsetur Gita yrði fyrst um sinn í Egyptalandi, við landamærin að Gasa, en það yrði að lokum flutt inn á svæðið með stuðningi öryggissveita frá Arabaríkjunum, undir stjórn Sameinuðu þjóðanna.

Áætlunin gerir ekki ráð fyrir að íbúar Gasa verði neyddir til að flytjast á brott, eins og áður hafði verði rætt um, og þá miðar hún að því að sameina öll svæði Palestínumanna undir heimastjórninni.

Samkvæmt Guardian eru ekki allir á eitt sáttir um forystu Blair en hann nýtur takmarkaðra vinsælda meðal Palestínumanna, þar sem hann þykir hafa staðið í vegi fyrir því að Palestína yrði sjálfstætt ríki. Þá hefur hann verið harðlega gagnrýndur fyrir að styðja innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003.

Tillaga Bandaríkjamanna rímar ekki við hina svokölluðu New York-yfirlýsingu, sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á dögunum. Hún kveður á um bráðabirgðastjórn teknókrata, sem myndu aðeins verða við stjórnvölinn í um ár.

Samkvæmt henni myndi heimastjórnin taka við völdum í kjölfar endurnýjunar, samþykkt uppfærðar stjórnarskrár og forseta- og þingkosninga. Emmanuel Macron Frakklandsforseti er sagður hafa unnið að því síðustu daga að minnka bilið á milli tilaganna tveggja og ná fram málamiðlun.

Donald Trump Bandaríkjaforseti fundaði með leiðtogum nokkurra Arabaríkja í vikunni og kynnti drög að tillögu Bandaríkjastjórnar.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×