Innlent

„Það verður boðið fram í nafni VG“

Agnar Már Másson skrifar
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna.

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segist ekki ætla að bjóða sig fram í borgarstjórnarkosningum í vor og segir að flokkurinn muni bjóða sig fram undir eigin formerkjum í Reykjavík.

„Það verður boðið fram í nafni VG,“ sagði Svandís í hlaðvarpinu Á öðrum bjór, „hvernig sem það síðan verður hvort sem það verður síðan í samstarfi við að aðra, eða óháðir.“

Fram hefur komið í máli Svandísar að hún sé opin fyrir samstarfi við aðra flokka á vinstri væng stjórnmálanna en í því samhengi hefur hún nefnt Kópavog, Árborg og Ísafjörð. 

Hún viðurkennir í hlaðvarpinu þó að VG, Sósíalistaflokkurinn og Píratar séu afar líkir hvað hugmyndafræði varðar en flókið væri fyrir VG að reyna að para sig saman við Pírata enda skilgreina þeir sig ekki sem vinstri flokk. 

Svandís, sem var ráðherra í síðustu ríkisstjórn, sat sjálf í borgarstjórn Reykjavíkur árin 2006 til 2009.

Þegar Svandís er spurð hvort hún hyggist prófa það aftur svarar hún hiklaust neitandi. 

„Þessi kafli er bara búinn. Ég hef alveg fjölþætta og mikla reynslu og hef unun af því að miðla henni til fólks en það verður að vera einhver framvinda í pólitík,“ segir hún.

„Við þurfum kynslóðaskipti og við þurfum breytingar og við þurfum nýtt fólk og ný andlit.“

Líf Magneudóttir, núverandi oddviti Vinstri grænna í borginni, hefur sagst stefna á framboð fyrir flokkinn í vor.

Í hlaðvarpinu ræddi Svandís einnig bága stöðu flokksins, sem féll af þingi í kosningum 2024 auk þess sem hann náði ekki 2,5 prósenta viðmiðinu til þess að fá styrk frá ríkinu sem stjórnmálasamtök.

„Nei, nei,“ svaraði Svandís spurð hvort flokkurinn bæri sig enn vel þrátt fyrir að fá ekki lengur framlög frá ríkinu. „Við beryum okkur ekkert sérstaklega vel, það er auðvitað hundleiðinlegt að fá ekki peninga og við finnum rosalega mikið fyrir því.“ Hreyfingin hafi þurft að hagræða mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×