Fótbolti

Arnar Þór látinn fara frá Gent

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnar Þór Viðarsson hefur undanfarin ár flakkað á milli Belgíu og Íslands.
Arnar Þór Viðarsson hefur undanfarin ár flakkað á milli Belgíu og Íslands. Getty Images/Han Myung-Gu

Arnar Þór Viðarsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, hefur verið látinn fara sem íþróttastjóri Gent sem leikur í efstu deild í Belgíu.

Hinn 47 ára gamli Arnar Þór spilaði lengi vel við góðan orðstír í Belgíu ásamt því að leika 52 A-landsleiki. Eftir að skórnir fóru upp á hillu sneri hann sér að þjálfun og hafði starfað fyrir bæði Cercle Brugge og Lokeren í Belgíu áður en hann tók til starfa hjá Knattspyrnusambandi Íslands árið 2019.

Það var svo ári síðar sem hann var ráðinn þjálfari A-landsliðs karla Hélt hann því starfi til 2023 þegar KSÍ lét hann fara. Eftir að hann yfirgaf Laugardalinn hélt Arnar Þór til Belgíu á nýjan leik. Var hann ráðinn inn sem þjálfari unglingaliðs Gent. 

Um mitt síðasta ár var hann svo hækkaður í tign og gerður að íþróttastjóri félagsins. Gent greinir nú frá því að Arnari hafi verið sagt upp. Talað er um skipulagsbreytingar og er landsliðsþjálfaranum þakkað fyrir gott starf og fagmennsku í starfi.

Sem stendur er Gent í 5. sæti efstu deildar Belgíu með 14 stig að loknum 9 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×