Skoðun

7 milljarða húsnæðisstuðningur af­numinn… en hvað kemur í staðinn?

Vilhjálmur Hilmarsson skrifar

Í fjárlagafrumvarpi 2026 er lagt til að fella niður almenna heimild til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán. Í umsögn Visku um frumvarpið er bent á að afnámið kostar heimilin um 7 milljarða króna á árinu 2026 og mun leiða til þess að stuðningur við húsnæðiseigendur verður við sögulegt lágmark á næsta ári. Viska skorar á stjórnvöld að framlengja almennu heimildina út 2026 hið minnsta meðan unnið er að heildarendurskoðun eigendastuðnings á Íslandi.

Mikilvægur skattaafsláttur og helmingur eigendastuðnings

Frá 2014 hefur skattaafsláttur og tilsvarandi húsnæðisstuðningur vegna almennu heimildarinnar numið um 90 milljörðum króna alls á verðlagi ársins 2025 – þar af um 7 milljörðum á árinu 2025. Þetta eru peningar sem íslensk heimili hafa nýtt til að lækka skuldsetningu sína. Sé gert ráð fyrir sömu nýtingu á árinu 2026 mun afnámið því kosta heimilin um 7 milljarða króna, í formi tapaðs skattaafsláttar, sem líta má á sem ígildi skattahækkana.

Rétt er að benda að þessi tapaði skattaafsláttur er sambærilegur við skattahækkunina sem felst í endurskoðun á skattlagningu ökutækja og eldsneytis á árinu 2026. Afnám almenna úrræðisins ,um helmings eigendastuðnings á Íslandi, gerir vonda stöðu í húsnæðismálum þá enn verri því eigendastuðningur á Íslandi er nú þegar mjög lágur í sögulegu og alþjóðlegu samhengi.

Framlengja, endurskoða og afnema skattleysi á margar íbúðir

Að mati Visku er óhjákvæmilegt að stjórnvöld framlengi áðurnefnt úrræði hið minnsta út árið 2026 á meðan eigendastuðningur hins opinbera er tekinn til endurskoðunar. Samhliða ættu stjórnvöld að beita sér af krafti fyrir aðgerðum sem auka framboð íbúðarhúsnæðis fyrir almenning ekki fjárfesta, t.a.m. með því að koma böndum á skammtímaleigu til ferðamanna og afnema skattleysi á söluhagnað þeirra sem eiga margar íbúðir.

Bendir Viska á þá einstöku staðreynd að hagnaður af sölu íbúðarhúsnæðis á Íslandi er skattfrjáls hafi aðili átt hina seldu eign í full tvö ár og ef heildarrúmmál íbúðarhúsnæðis er undir 600 m3 hjá einstaklingi. Jafngildir það skattleysi á þrjár 70-80 fermetra íbúðir miðað við venjulega lofthæð svo dæmi séu tekin.

Það skýtur skökku við að fyrri stjórnvöld skuli hafa valið að ýta undir fasteignaverð á Íslandi með skattleysi til þeirra sem eiga margar íbúðir, þegar húsnæðisvandi unga fólksins er sögulegur og mun bara aukast á næstu árum.

Þessu til frekari glöggvunar bendum við á umfjöllun Visku um kynslóðaójöfnuð.

Höfundur er hagfræðingur Visku – stéttarfélags háskólamenntaðra




Skoðun

Skoðun

Mega einhverf hverfa?

Ármann Pálsson,Björg Torfadóttir,Sigrún Ósk,Sigurjón Már,Halldóra Hafsteins,Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,Mamiko Dís Ragnarsdóttir skrifar

Sjá meira


×