Innlent

Kyn­greint nautasæði kemur vel út

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sérstakur kyngreiningarbíll kemur frá Danmörku til landsins með fullkomin tæki til að vinna verkið. Bílinn er í raun rannsóknarstofa á hjólum og er staðsettur við Nautastöð Bændasamtakanna á Hesti í Borgarfirði.
Sérstakur kyngreiningarbíll kemur frá Danmörku til landsins með fullkomin tæki til að vinna verkið. Bílinn er í raun rannsóknarstofa á hjólum og er staðsettur við Nautastöð Bændasamtakanna á Hesti í Borgarfirði. Aðsend

Kúabændur eru ánægðir með þann árangur sem náðst hefur með kyngreint sæði þegar þeir velja naut til að sæða kýr sínar með. Með sæðinu ræður bóndinn hvort hann fær kvígukálf eða nautkálf í heiminn. Sérstakur kyngreiningarbíll frá Danmörku kemur til landsins til að kyngreina sæðið.

Forsvarsmenn deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökum Íslands hafa verið á ferð um landið til að funda með kúabændum og nautgripabændum um nýjustu málin í greininni og framtíðarsýn. Einn slíkur fundur fór fram á Flúðum þar sem m.a. var kynnt hvernig gengið hefur með kyngreint nautasæði. Fyrsta kyngreining á slíku sæði fór fram hér á landi í desember á síðasta ári.

„Á mannamáli má segja að nú getum við með um 90% vissu valið hvort við fáum nautkálf eða kvígukálf þegar við sæðum kýrnar okkar. Þetta er stórmerkilegt því þetta hefur lengi verið fjarlægur draumur en er nú loksins orðið að veruleika. Fram undan eru því virkilega spennandi tímar,” segir Rafn Bergsson, formaður deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökunum.

Rafn segir að kúabændur leitist nú við að fá kvígur undan bestu mjólkurkúnum sínum, en geti jafnframt sætt lakari kýrnar með holdanautum til að fá gripi sem henta betur til kjötframleiðslu.

Rafn Bergsson, sem er formaður deildar nautgripabænda hjá Bændasamtökunum er hér í ræðustól á fundinum á Flúðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En hvaða breytingar mun kyngreint sæði hafa í för með sér fyrir kúabúskap á Íslandi?

„Þetta mun klárlega opna heilmikil tækifæri og vonandi flýta fyrir erfðaframförum. Ég held að til skemmri tíma muni þetta líka auka möguleikana í nautakjötsframleiðslu með meiri blendingum sem henta sérstaklega vel til kjötframleiðslu,” segir Rafn.

Sérstakur kyngreiningarbíll kemur frá Danmörku til landsins með fullkomin tæki til að vinna verkið. Bíllinn er í raun rannsóknarstofa á hjólum og er staðsettur við Nautastöð Bændasamtakanna á Hesti í Borgarfirði.

Kúabændur, sem mættu á opna fundinn á Flúðum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Og þú ert greinilega mjög spenntur fyrir þessu öllu saman?

„Já, mjög, þetta er virkilega stór áfangi og spennandi tímar fram undan,” segir Rafn alsæll.

Ein af glærunum á fundinum á Flúðum um kyngreinda sæðið.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×