Sport

Ríkjandi heims­meistara neitað um vega­bréfs­á­ritun inn í landið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Artem Dolgopyat er ekki aðeins núverandi heimsmeistari heldur er hann einnig fyrrverandi Ólympíugullverðlaunahafi í gólfæfingum.
Artem Dolgopyat er ekki aðeins núverandi heimsmeistari heldur er hann einnig fyrrverandi Ólympíugullverðlaunahafi í gólfæfingum. Getty/Stephen McCarthy/

Indónesía neitar að gefa út vegabréfsáritun fyrir ísraelsku fimleikamennina sem höfðu áformað að taka þátt í heimsmeistaramótinu í fimleikum sem fram fer í höfuðborg landsins, Jakarta, í þessum mánuði.

Það lítur því út fyrir að ríkjandi heimsmeistari Ísraels í gólfæfingum, Artem Dolgopyat, geti ekki tekið þátt í HM og missi af tækifærinu til að verja titilinn.

Ákvörðunin um að neita ísraelsku fimleikamönnunum um aðgang er tekin í kjölfar mikillar óánægju meðal almennings vegna þátttöku Ísraela, en stór hluti þjóðarinnar styður Palestínu, að því er AP greinir frá.

Indónesía er einmitt það ríki í heiminum þar sem flestir múslímar búa þrátt fyrir að Indónesía sé þó ekki íslamskt lýðveldi.

Dolgopyat er ekki aðeins núverandi heimsmeistari heldur er hann einnig fyrrverandi Ólympíugullverðlaunahafi í gólfæfingum.

Alþjóðafimleikasambandið (FIG) vonast þó enn eftir lausn áður en HM hefst þann 19. október.

„FIG vonast til þess að sem fyrst verði skapað umhverfi þar sem íþróttafólk frá öllum heimshornum getur stundað íþróttir á öruggan hátt og með hugarró,“ skrifar FIG í fréttatilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×