Erlent

Pakistan og Afgan­istan gera vopna­hlé eftir mann­skæðustu á­tök í langan tíma

Eiður Þór Árnason skrifar
Mannvirki rifið í aðgerð sveitarstjórnar gegn ólöglegri búsetu afganskra flóttamanna í útjaðri Karachi í Pakistan í dag.
Mannvirki rifið í aðgerð sveitarstjórnar gegn ólöglegri búsetu afganskra flóttamanna í útjaðri Karachi í Pakistan í dag. Ap/Fareed Khan

Pakistan og Afganistan tilkynntu um vopnahlé í dag eftir mannskæðustu átök í mörg ár sem kostuðu tugi manns lífið beggja vegna landamæranna.

Samkomulagið náðist í kjölfar ákalla frá ríkjum á borð við Sádi-Arabíu og Katar sem óttuðust að átökin gætu raskað stöðugleika svæðis enn frekar þar sem hópar, þar á meðal samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki og al-Kaída, reyna að ná fótfestu á ný.

Pakistan sakar Afganistan um að hýsa vopnaða hópa en Talíbanar sem eru við stjórn í landinu vísa þessu á bug. Pakistan hefur þurft að glíma við árásir vígamanna sem hafa aukist frá árinu 2021 þegar Talíbanar náðu völdum í Afganistan.

AP-fréttaveitan greinir frá þessu en utanríkisráðuneyti Pakistans segir vopnahléið eiga að gilda í 48 klukkustundir. Bætti það við að fallist hafi verið á hlé yrði gert á átökum að beiðni yfirvalda í Afganistan. Helstu landamærastöðvar milli ríkjanna eru enn lokaðar.

Fólk gengur um húsarústir eftir niðurrif yfirvalda á mannvirkjum í útjaðri Karachi í Pakistan í dag.Ap/Fareed Khan

Stuttu síðar sagði Zabihullah Mujahid, aðaltalsmaður Talíbanastjórnarinnar, að vopnahléið væri tilkomið vegna „kröfu“ Pakistana. Í færslu hans á samfélagsmiðlum var ekki minnst á 48 klukkustunda tímaramma.

Fyrr í dag tilkynntu stjórnvöld í Pakistan að hermenn þeirra hefðu drepið tugi afganskra öryggissveita og vígamanna í bardögum í nótt.

Margt á reiki

Hjálparsamtökin Emergency NGO sem reka skurðlækningamiðstöð í Kabúl, höfuðborg Afganistan, sögðust hafa fengið fimm látna og fjörutíu særða eftir sprengingar í höfuðborginni.

Dejan Panic, landsstjóri samtakanna í Afganistan, sagði að fórnarlömbin hefðu verið með „sár eftir sprengjubrot, högg og brunasár.“ Í yfirlýsingu sagði hann að tíu væru í lífshættu.

Óljóst er hvað olli sprengingunum, að sögn AP en Talíbanar staðfestu að sprenging hafi orðið í olíuflutningaskipi. Þá sögðu tveir pakistanskir ​​fulltrúar að her þeirra hefði ráðist á felustað vígamanna.

Maður sem særðist í átökum pakistanskra og afganskra hermanna á landamærasvæðinu fluttur til læknismeðferðar á sjúkrahús í Chaman, bæ við landamæri Pakistan.AP/H. Achakzai

Mujahid, talsmaður Talíbana, hafði áður sagt að yfir hundrað hafi særst í árásum pakistanskra hermanna á Spin Boldak í suðurhluta Kandaharhéraðs og meira en tólf fallið. Afganskir ​​hermenn hafi svarað skothríðinni og drepið nokkra pakistanska hermenn, að sögn Mujahid.

Pakistan fullyrðir að það hafi varist „tilefnislausum“ árásum en neitar því að hafa beint árásum að óbreyttum borgurum.

Á sama tíma greindu íbúar í pakistanska landamærabænum Chaman frá því að sprengjur hefðu fallið nálægt þorpum. Íbúar nálægt landamærunum væru að yfirgefa svæðið.

Átök litað svæðið frá árinu 1979

Átök hafa verið viðvarandi við landamæri Pakistans frá árinu 1979, þegar það var víglínuríki í stríði sem naut liðsinnis Bandaríkjanna og beindist gegn Sovétríkjunum í Afganistan.

„Eftir árásirnar þann 11. september skapaðist upplausnarástand á ættbálkasvæðum Pakistans þar sem hinir afgönsku Talíbanar, al-Kaída og aðrir hópar báðum megin við landamærin réðust á sveitir Atlandshafsbandalagsins og pakistanskar öryggissveitir,“ sagði Abdullah Khan, varnarmálasérfræðingur og framkvæmdastjóri Pakistan Institute for Conflict and Security Studies, við AP-fréttaveituna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×