Innlent

Úti­lokar ekki af­skipti ríkis­stjórnarinnar af verk­fallinu

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra heldur utan um buddu ríkisins.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra heldur utan um buddu ríkisins. Vísir/Anton Brink

Fjármála- og efnahagsráðherra útilokar ekki að ríkisstjórnin grípi inn í vegna stöðu mála í kjaraviðræðum flugumferðarstjóra. Fyrsta vinnustöðvunin fór fram síðastliðna nótt og hafa fleiri aðgerðir verið boðaðar. Ríkisstjórnin fylgist grannt með.

Verkfall flugumferðarstjóra hófst í gærkvöldi og heldur áfram í nótt. Öllum flugferðum sem voru á áætlun á verkfallstíma var aflýst, frestað eða flýtt.

„Í gær hófst verkfall flugumferðarstjóra sem hefur í för með sér veruleg áhrif á flugsamgöngur, áætlanir ferðamanna, starfsemi ferðaþjónustu og rekstur flugfélaga. Áhrifin ná einnig til fjölmargra fyrirtækja og heimila sem treysta á öruggar og tímalegar tengingar við útlönd,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Hún spurði Daða Má Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, meðal annars um hvenær almenningur, aðilar vinnumarkaðarins og þjónustugreinar sem reiði sig á flugsamgöngur geti gert ráð fyrir skýrri afstöðu ríkisstjórnarinnar og viðeigandi aðgerðum.

„Við virðum samningsfrelsi og verkfallsrétt en á sama tíma ber okkur skylda til að gæta almannahagsmuna og stuðla að því að deilur leysist á farsælan og fyrirsjáanlegan hátt,“ segir Guðrún.

Daði Már sagði það ljóst að um væri að ræða lykilstétt í landinu.

„Þetta er mál sem ríkisstjórnin fylgist mjög grannt með. Þingheimi er ljóst að það hefur komið upp á í sögunni að gripið sé til aðgerða og þá er það gert með stuttum fyrirvara þegar staðan er metin þannig að ekki sé annað fært en að grípa inn í.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×