Innlent

Verk­falli flug­um­ferðar­stjóra af­lýst

Vésteinn Örn Pétursson og Eiður Þór Árnason skrifa
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra.
Arnar Hjálmsson er formaður Félags flugumferðarstjóra. Vísir/Vilhelm

Næstu vinnustöðvun flugumferðarstjóra hefur verið aflýst. Þetta kom fram í máli Arnars Hjálmssonar, formanns Félags flugumferðarstjóra, í kvöldfréttum Sýnar.

Fyrsta vinnustöðvun flugumferðarstjóra hófst í gær og lauk klukkan 3 aðfaranótt mánudags. Sú næsta átti að hefjast klukkan 3 í nótt og hafa áhrif á alþjóðlegt flugstjórnarsvæði í og við Grænland. Myndi það leiða til þess að flugvélum þyrfti að beina sunnar en ella. 

Ekki var boðað til fundar milli aðila í kjaradeilunni hjá Ríkissáttasemjara í dag en þétt var fundað í húsakynnum Félags íslenskra flugumferðarstjóra. 

Arnar segir að fundað verði aftur með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins klukkan 10 í fyrramálið. 

„Við erum búin að senda það út að það er búið að aflýsa vinnustöðvuninni sem átti að vera í nótt.“

Til standi að koma með hugmynd að samningaborðinu sem gæti leyst hnútinn sem hefur verið í viðræðunum um nokkurt skeið. Arnar sagði viðræðurnar á viðkvæmu stigi og hann gæti því ekki upplýst hvað þessi tillaga flugumferðarstjóra feli í sér. 

Næstu fyrirhuguðu vinnustöðvanir standi óbreyttar. „Þetta gefur okkur að minnsta kosti tvo daga þar sem næsta vinnustöðvun á eftir þeirri sem átti að vera í nótt er ekki fyrr en á fimmtudaginn. Svo þetta gefur okkur að minnsta kosti tvo daga og vonandi náum við að klára þetta mál á þeim tíma.“

Arnar hefur áður gefið út að ekki sé lagt á milli samningsaðila en framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hefur kallað flugumferðarstjóra hálaunastétt í skæruverkföllum. Arnar hafnar því að þeir séu að fara fram á hækkanir umfram aðra launaþróun í landinu en séu ræða ýmsar útfærslur á því hvernig hægt sé að reyna að halda í við launaþróun.

„Þessar fullyrðingar hennar um að við séum að fara fram á mikið meira en allir aðrir eru bara rangar.“

Fréttin er í vinnslu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×