Veður

Svöl norðan­átt og hálka á vegum

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti eitt til sex stig að deginum, en víða vægt frost í nótt.
Hiti eitt til sex stig að deginum, en víða vægt frost í nótt. Vísir/Anton

Öflug hæð yfir Grænlandi og lægðasvæði yfir Bretlandseyjum beina nú svalri norðanátt til landsins sem gefur él á norðanverðu landinu en bjartviðri sunnan heiða.

Á vef Veðurstofunnar segir að líkur séu á að hálka myndist á blautum vegum og gangstéttum og séu landsmenn því hvattir til að fara varlega í morgunumferðinni.

Spáð er norðaustan átta til fimmtán metrar á sekúndu í dag og snjó- eða slydduéljum, en léttir smám saman til sunnan heiða. Hvessir austast seint í kvöld og nótt.

Hiti eitt til sex stig að deginum, en víða vægt frost í nótt.

Búast má við vetrarástandi á fjallvegum víða um land næstu daga með takmörkuðu skyggni í éljum eða snjókomu og mögulega erfiðum aksturskilyrðum. Búast má við hálku suðvestanlands fram eftir morgni.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Norðan 10-18 m/s, hvassast austast. Víða slyddu- eða snjóél, en yfirleitt bjartviðri sunnan- og vestantil. Hiti 0 til 5 stig að deginum.

Á fimmtudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s og dálítil él á Norður- og Austurlandi, en annars víða léttskýjað. Frost 0 til 5 stig.

Á föstudag: Fremur hæg beytileg átt, dálíitl snjókoma eða él á vestanverðu landinu og hiti nærri frostmarki, en annars úrkomulítið og frost 0 til 5 stig.

Á laugardag (fyrsti vetrardagur): Hægviðri og skýjað að mestu, en útlit fyrir austan 5-10 m/s og snjókomu sunnan- og vestantil um kvöldið. Frost 0 til 5 stig.

Á sunnudag og mánudag: Fremur hægir vindar, skýjað með köflum og stöku él við ströndina. Áfram svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×