Erlent

Villur í dómum sömdum með að­stoð gervi­greindar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómstólar hafa verið hvattir til að setja skýrar og strangar reglur um notkun gervigreindar.
Dómstólar hafa verið hvattir til að setja skýrar og strangar reglur um notkun gervigreindar. Getty

Tveir alríkisdómarar í Bandaríkjunum hafa viðurkennt að hafa gefið út ákvarðanir sem voru fullar af villum, eftir að gervigreind var notuð til að semja þær.

Það var þingmaðurinn Chuck Grassley, formaður dómstólanefndar öldungadeindarinnar, sem kom upp um málið en hann réðist í athugun eftir að hafa fengið ábendingar frá lögmönnum.

Dómararnir Henry Wingate í Mississippi og Julien Xavier Neals í New Jersey játuðu því báðir að auk þess sem gervigreind hefði verið notuð af aðstoðarmönnum þeirra, hefðu ákvarðanirnar ekki verið yfirfarnar eins og á að gerast.

Neals sagði að ákvörðunin í New Jersey hefði verið birt fyrir mistök og að lærlingur hefði notað ChatGTP í rannsóknarskyni, án þess að fá til þess heimild. Reglur um notkun gervigreindar hefðu verið hertar í kjölfarið.

Að sögn Wingate notaði starfsmaður hans gervigreindartólið Perplexity til að semja drög að ákvörðun og það hefðu verið mannleg mistök að birta hana.

Grassley hefur hvatt dómara til að setja skýrar og strangar reglur um notkun gervigreindar.

Lögmenn í Bandaríkjunum hafa einnig sætt gagnrýni fyrir notkun gervigreindar og tugir verið sektaðir af dómurunum fyrir að yfirfara ekki gögn unnin af gervigreind áður en þeim var skilað inn.

Reuters greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×