Innlent

Út­lit fyrir nauman sigur frjáls­lyndra og fyrsta samkynheigða for­sætis­ráð­herra landsins

Agnar Már Másson skrifar
Rob Jetten, formaður D66, á kosningafundi eftir að útgönguspár lágu fyrir.
Rob Jetten, formaður D66, á kosningafundi eftir að útgönguspár lágu fyrir. AP

Frjálslyndi D66-flokkurinn fær samkvæmt útgönguspám flest sæti á hollenska þinginu. Þannig gæti flokksformaðurinn Rob Jetten orðið landsins yngsti og fyrsti opinberlega samkynhneigði forsætisráðherra. Á sama tíma hefur Frelsisflokkur Geert Wilders tapað þriðjungi sinna þingsæta samkvæmt könnunum.

Hollendingar gengu í dag að kjörborðinu þar sem haldnar eru þriðju þingkosningarnar í landinu á fjórum árum eftir að slitnaði úr ríkisstjórn Geert Wilders. 

Kannanir bentu til þess að Frelsisflokkur Wilders yrði stærstur en útgönguspár segja aðra sögu.

Alls eru 150 þingsæti en samkvæmt útgönguspám, sem Guardian greinir frá, myndu 15 flokkar fá sæti inni á þingi Hollendinga. Þar af hlyti D66 um 27 sæti. Þannig þarf aðeins 0,67 prósent atkvæða til að ná þingmanni inn.

Verði þetta niðurstaðan yrði þetta sögulegur sigur fyrir flokkinn en hann hlaut aðeins níu sæti í síðustu kosningum árið 2023. 

Auk þess er þetta áfall fyrir Frelsisflokkinn sem hlýtur samkvæmt þessu 25 sæti, en flokkur Wilders hlaut 37 sæti í síðustu kosningum. 

Á sama tíma hafa flestir stærri flokkar útilokað samstarf með Frelsisflokknum, þannig að jafnvel þótt hann ynni væri nánast öll von úti um að hann gæti myndað ríkisstjórn. Flokkurinn er afar mótfallinn flæði innflytjenda inn í landið. 

D66 er frjálslyndur og evrópusinnaður og svipar að mörgu leyti til Viðreisnarflokksins á Íslandi en þykir þó lengra til vinstri en Viðreisn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×