Innlent

Þúsundir hafi orðið af milljónum

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Sveinbjörn Claussen lögmaður og Styrmir Gunnarsson kollegi hans hvetja stjórnvöld til að leggja aftur fram frumvarp sem ætlað er að leiðrétta misræmi milli skaðabóta og launaþróunar á vinnumarkaði.
Sveinbjörn Claussen lögmaður og Styrmir Gunnarsson kollegi hans hvetja stjórnvöld til að leggja aftur fram frumvarp sem ætlað er að leiðrétta misræmi milli skaðabóta og launaþróunar á vinnumarkaði. Vísir

Bætur fyrir líkamstjón samkvæmt skaðabótalögum hafa ekki verið uppfærðar í 26 ár og halda ekki lengur í við launaþróun á vinnumarkaði. Fyrir vikið hafa þúsundir slasaðra einstaklinga fengið bætur sem endurspegla ekki raunverulegt fjártjón þeirra.

Þetta segir Sveinbjörn Claessen, hæstaréttarlögmaður hjá Landslögum, en hann og Styrmir Gunnarsson samstarfsmaður hans segja núgildandi skaðabótalög úrelt.

Þegar lögin voru sett hafi skaðabætur verið miðaðar við lánavísitölu en ekki launavísitölu. Launavísitala hafi hins vegar hækkað meira en lánavísitala á síðustu áratugum.

Frumvarpið dagaði uppi

„Árið 2017 lagði dómsmálaráðuneytið fram frumvarp sem ætlað var að leiðrétta þetta misræmi og taldi brýnt að ráðast í breytingar „án tafar“ eins og sagði í frumvarpinu,“ segir Sveinbjörn.

„Í greinargerð ráðuneytisins með frumvarpinu kom fram að forsendur laganna væru orðnar úreltar og að markmið þeirra, að tryggja fullar bætur fyrir raunverulegt tjón, næðist ekki lengur.“

Í greinargerðinni hafi meðal annars staðið að í frumvarpinu fælist ekki efnisbreyting heldur leiðrétting, sem yrði að gera hið fyrsta.

Bætur fyrir varanlega örorku tugum prósenta lægri en þær ættu að vera

„Frumvarpið, sem unnið var af Eiríki Jónssyni, þá prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, fól í sér að uppfæra svonefndan aldursstuðul og tengja hámarks- og lágmarkslaunaviðmið við launavísitölu í stað lánskjaravísitölu.“

„Í núgildandi lögum eru bætur tengdar við lánskjaravísitölu, sem fylgir verðbólgu, en launavísitalan hefur hækkað nær tvöfalt meira á sama tíma. Sá munur hefur leitt til þess að bætur fyrir varanlega örorku eru í dag tugum prósenta lægri en þær ættu að vera miðað við launaþróun,“ segir Sveinbjörn.

„Þetta þýðir einfaldlega að fólk sem missir starfsgetu af völdum slysa fær ekki bætur í samræmi við það tekjutap sem það raunverulega verður fyrir.“

Hvetja stjórnvöld til að taka málið upp aftur

Sveinbjörn segir að þrátt fyrir að frumvarpið hafi verið fullunnið árið 2017 og samstaða ríkt um meginatriði þess, hafi það dagað uppi í þingnefnd og ekkert hafi verið gert síðan.

Afleiðingarnar af þessu séu miklar fyrir fjölda einstaklinga sem slasast og reiða sig á réttlátt bótakerfi. Slasaðir fái einfaldlega ekki þær bætur sem þeir ættu að fá þegar litið er til upphaflegra markmiða og sjónarmiða sem hvíldu að baki setningu skaðabótalaga.

„Það eru ekki bara tölur á blaði. Tjónþolar verða af umtalsverðum fjárhæðum sem ætlaðar eru að bæta þeim rauntekjutap sitt til framtíðar. Það er ekki ásættanlegt að slasaðir fái ekki fullar bætur fyrir líkamstjón sitt af því einu að Alþingi fylgdi ekki frumvarpinu árið 2017 eftir.“

Sveinbjörn og Styrmir hvetja stjórnvöld til að taka málið aftur upp á yfirstandandi þingi og ljúka þeirri endurskoðun sem ráðuneytið taldi nauðsynlegt að ráðast í án tafar fyrir átta árum.

„Frumvarpið er til. Gögnin liggja fyrir. Það eina sem vantar er pólitískur vilji til að afgreiða málið,“ segir Sveinbjörn.


Tengdar fréttir

Tekur fyrir deilu um fjár­hæð bóta fyrir varan­lega ör­orku eftir um­ferðar­slys

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni konu í máli hennar gegn tryggingafélaginu TM þar sem deilt er um fjárhæð bóta fyrir varanlega örorku vegna umferðarslyss sem konan lenti í á Reykjanesbraut árið 2011. Deilt er um við hvaða tekjutímabil eigi að miða við ákvörðun bóta, en konan vildi meira að ungur aldur hennar hafi gert það að verkum að hún hafi fengið greiddar lægri bætur frá tryggingafélaginu en eðlilegt sé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×