Innlent

Álftin fæli bændur frá korn­rækt

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson er formaður Framsóknarflokksins. Vísir/Vilhelm

Fjórir þingmenn minnihlutans vilja að leyfilegt verði að veiða fjórar fuglategundir, þar á meðal álft, utan hefðbundins veiðitíma vegna ágangs þeirra á tún og kornakra. Flutningsmaður segir fuglana þess valdandi að bændur forðist að fara í stórfellda kornrækt.

Þetta er í fjórða sinn sem sama tillagan er lögð fram en það eru þingmenn Framsóknarflokksins og Miðflokksins sem standa að henni. Vilja þeir að umhverfisráðherra útbúi tillögur um að veiða megi álft, grágæs, heiðagæs og helsingja á kornökrum og túnum frá 15. mars til 20. ágúst. Veiðar á álft á kornökrum verði svo leyfilegar ögn lengur, til 1. október.

Í tillögunni kemur fram að ágangur fuglanna valdi bændum fjárhagslegu tjóni. Sigurður Ingi Jóhannsson, einn flutningsmanna og fyrrverandi landbúnaðarráðherra, segir stofnana hafa stækkað gríðarlega á síðustu árum, þá sérstaklega álftarstofninn.

„Hún er líka farin að hafa vetrarsetu í meira mæli og þar af leiðandi komin á túnin, nýræktir, mjög snemma á vorin. Hún étur þá grasið upp með rótum og rýrir þar með túnin. En auðvitað koma líka stórar hjarðir af grágæs og helsingja,“ segir Sigurður Ingi. 

Álftin hefur verið friðuð frá árinu 1913 og telur stofninn um 34 þúsund fugla í dag.

Ég myndi gera ráð fyrir því að þetta gæti orðið tilfinningamál fyrir einhverja. Álftin er elskaður fugl. Óttastu að fólk verði ósátt með þetta?

„Einhverjir sjá fyrir sér Dimmalimm og þetta er auðvitað tignarlegur fugl. En á móti hefur hann fjölgað sér alveg gríðarlega frá því hann var friðaður. Ég held það sé kominn tími á að horfast í augu við þann raunveruleika að tjón af þessu er meðal annars þess valdandi að menn veigra sér við að fara í stórfellda kornrækt,“ segir Sigurður Ingi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×