Erlent

Frum­varp um fjár­mögnun al­ríkisins sam­þykkt í öldunga­deildinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tim Kaine var meðal öldungadeildarþingmanna Demókrataflokksins sem greiddi atkvæði með frumvarpinu. Sagðist hann gera það með hagsmuni opinberra starfsmanna í huga.
Tim Kaine var meðal öldungadeildarþingmanna Demókrataflokksins sem greiddi atkvæði með frumvarpinu. Sagðist hann gera það með hagsmuni opinberra starfsmanna í huga. Getty/Bill Clark

Átta þingmenn Demókrataflokksins í öldungadeild bandaríska þingsins greiddu atkvæði með Repúblikönum þegar gengið var til atkvæðagreiðslu í gærkvöldi um frumvarp til að greiða fyrir opnun alríkisins.

Alríkið hefur verið ófjármagnað og þar með „lokað“ í um 40 daga og er lokunin farin að hafa veruleg áhrif á fjölda opinberra starfsmanna sem hafa verið sendir í launalaust leyfi. Þá hefur það staðið fyrir dyrum að milljónir verði af mataraðstoð og samgöngur fari í hnút vegna aðgerða á fjölda flugvalla landsins.

Frumvarpið á enn eftir að fara fyrir fulltrúadeildina, þar sem margir Demókratar eru fjúkandi reiðir yfir ákvörðun kollega sinna í efri deildinni að gefa eftir. Demókratar höfðu fram að þessu neitað að greiða fyrir nýjum fjárlögum nema með loforði frá Repúblikönum um að framlengja niðurgreiðslur sjúkratrygginga fyrir milljónir Bandaríkjamanna, sem renna annars út í árslok.

Demókratar hafa staðið nokkuð þétt saman, enda hafa skoðanakannanir sýnt að þrátt fyrir tilraunir Donald Trump Bandaríkjaforseta og þingmanna Repúblikanaflokksins til að kenna Demókrötum um lokunina, séu flestir á því að þar sé Repúblikönum sjálfum um að kenna.

Enda ráða þeir bæði ríkjum í Hvíta húsinu og báðum þingdeildum.

Demókratarnir átta sem greiddu atkvæði með frumvarpinu í gærkvöldi virðast hafa gefið eftir án þess að hafa nokkuð fast í hendi um framhaldið, nema vilyrði fyrir því að atkvæðagreiðsla fari fram í desember um að framlengja greiðsluþátttöku ríkisins í sjúkratryggingum um eitt ár.

Ljóst þykir að málið yrði fellt af meirihluta Repúblikana í þinginu.

Frumvarpið sem samþyktt var í gær með 60 atkvæðum gegn 40 felur í sér fjármögnun ríkisins út janúar 2026. Þá verða opinberir starfsmenn sem sagt var upp í kjölfar lokunarinnar endurráðnir og starfsmenn í leyfi fá greitt aftur í tímann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×