Innlent

Kol­röng skila­boð að brosa á mynd með ESB í miðjum storminum

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Vísir/Vilhelm

Diljá Mist Einarsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd Alþingis, hefur óskað eftir því að utanríkisráðherra komi á fund nefndarinnar sem fyrst til að ræða tillögu framkvæmdastjórnar ESB um verndarráðstafanir vegna járnblendis en hvorki Íslandi né Noregi verður hlíft við ráðstöfunum samkvæmt tillögunni.

Núna er okkur það ljóst hvað framkvæmdastjórnin vill gera og svo kemur það í ljós öðru hvoru megin við helgina hvernig þetta að endingu fer. Segðu mér hvað þú myndir vilja gera í þessari stöðu.

„Það er mikilvægt að utanríkisráðherra komi og hitti okkur nefndina og upplýsi okkur um hvað er búið að gera og hvernig þessum viðræðum vatt fram, á hvað var reynt og hvað var rætt og svo framvegis því niðurstaðan er auðvitað að okkar mati, og ég get ekki heyrt annað á utanríkisráðherra, að þetta sé bara skýrt brot á EES samningnum. Þá er næsta skref fyrir okkur að skoða hvaða leiðir eru í boði og þá í samfloti við Norðmenn þar sem eru líka gríðarlegir hagsmunir undir, hvaða leiðir eru í boði að láta reyna á þetta.“

Diljá kveðst vilja setja á ís samstarfsyfirlýsingar við ESB þar til frekari mynd er komin á málið.

„Mér fyndist það fráleit skilaboð frá íslenskum stjórnvöldum að íslenskur utanríkisráðherra, sem er að gæta hagsmuna Íslands, myndi mæta í ljósmyndaviðhöfn með fulltrúum Evrópusambandsins og stilla sér upp brosandi og skrifa undir nýjan samning þegar verið er að brjóta svona harkalega gegn helsta viðskiptasamningi Íslendinga, mér þættu það kolröng skilaboð.“


Tengdar fréttir

Bindur vonir við „plan B“

Utanríkisráðherra lýsir vonbrigðum yfir því að framkvæmdastjórn ESB vilji ekki gefa Íslandi undanþágu frá tollum á járnblendi. Fyrst „plan A“ virkaði ekki bindur hún vonir við „plan B“ en skýrir þó ekki hvað hún meinar með því. Forstjóri Elkem lýsir einnig óvissu og vonbrigðum en telur ólíklegt að tilverugrundvelli fyrirtækisins sé ógnað. Enn sé of mikið af ósvöruðum spurningum.

Gætu þurft að draga úr framleiðslu á Grundartanga

Elkem hefur tilkynnt að dregið verði úr framleiðslu í járnblendiverksmiðjum félagsins í Rana í Noregi og á Grundartanga. Forstjóri Elkem á Íslandi segir að í versta falli verði slökkt á einum þriggja ofna á Grundartanga í fimmtíu til sextíu daga. Hann voni þó að ekki þurfi að koma til þess. Þá verði engum sagt upp hjá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×