Innlent

Miðflokkur skákar Sjálfstæðisflokknum: „Stórmerkileg niður­staða“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði. Vísir/Arnar

Miðflokkurinn er stærri en Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn í nýrri könnun Maskínu. Flokkurinn mælist með um sautján prósenta fylgi sem hækkar um ríflega þrjú prósentustig á milli kannana. Miðflokkurinn hefur aldrei mælst stærri í könnunum Maskínu og hefur næstum því tvöfaldað fylgið sitt frá því í september. 

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir niðurstöðu könnunarinnar einfaldlega stórmerkilega. „Að flokkur eins og Miðflokkurinn, sem var í fyrstu klofningsflokkur úr Framsókn en stillir sér síðan upp þjóðernisíhaldsmegin við Sjálfstæðisflokkinn, sé augljóslega að taka töluvert fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Og hefur nú orðið þessa lykilstöðu í íslenska flokkakerfinu.“

Niðurstaðan er úr tveimur könnunum. Sú fyrri var framkvæmd 3. til 10. nóvember og sú seuinni dagana 13. til 18. nóvembervísir

Þetta sé í takti við þróunina víða annars staðar þar sem þjóðernisáherslur njóti aukinna vinsælda.

„Það er ákveðin sveifla í íhaldsátt; harðari gæslu á landamærum, að stemma stigu við innflytjendum. Þetta hefur átt upp á pallborðið og Miðflokkurinn er sá flokkur í íslenskum stjórnmálum sem er næst þessum hugmyndum. Að einhverju leyti er það menningarstríð sem á sér stað í löndunum í kringum okkur að flytjast til Íslands og Miðflokkurinn nýtur góðs af því.“

Fylgi Miðflokksins mældist ríflega níu prósent í september og hefur því nærri tvöfaldast síðan þá.vísir

Samfylkingin er enn lang stærsti flokkurinn með tuttugu og níu prósenta fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn lækkar örlítið og fer úr tæpum sextán prósentum í rúm fimmtán. Fylgi flokksins hefur þó verið á stöðugri niðurleið síðan snemma í vor þegar það mældist mest tuttugu og fjögur prósent. Eiríkur segir flokkinn í verulegum vanda.

 „Sjálfstæðisflokkurinn nær ekki neinni viðspyrnu og það er auðvitað athyglivert. Eftir stjórnarskiptin og eftir að flokkurinn galt nánast afhroð í síðustu kosningum nær hann ekki þeirri viðspyrnu sem fólk í Valhöll hafði eflaust búist við, eftir slíka lægð og eftir að hafa skipt um forystu. Þar eru verulegir erfiðleikar,“ segir Eiríkur og bætir við að segir Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður flokksins, sé í snúinni stöðu.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, er í erfiðri stöðu segir Eiríkur Bergmann.Aðsend

Samkvæmt könnun Maskínu dalar Viðreisn nokkuð og fer úr sextán prósentum í rúm þrettán. Framsókn stendur í stað með tæplega sjö prósent en fylgi Flokks fólksins dregst áfram saman og mælist nú 5,6 prósent.

Eiríkur segir flokkakerfið á Íslandi gjörbreytt. „Það hefur legið fyrir í dálítinn tíma. Samfylkingin heldur ótrúlega sterkri stöðu og í rauninni er meðbyrinn með ríkisstjórninni einkum Samfylkingarinnar. Flokkur fólksins er kominn í fallhættu og Viðreisn er ekki að njóta sömu ávinninga og Samfylkingin. Þá nær Framsókn ekki heldur viðspyrnu og það er kannski ris Miðflokksins sem heldur þeim niðri.“

Flokkarnir á vinstri vængnum sem náðu ekki manni inn á þing í síðustu kosningum haldast á svipuðu róli. Píratar og VG eru með tæp fimm prósent en Sósíalistar tæp þrjú.

Atkvæði þeirra sem eru á vinstri væng stjórnmálanna falla niður dauð þar sem flokkarnir þrír ná ekki inn á þing.vísir/Vilhelm

„Það er óvanaleg staða í sölum Alþingis þar sem það er enginn flokkur vinstra megin við sósíaldemókratana en skoðanakannanir sýna að þarna eru samanlagt um tíu til fimmtán prósent sem dreifast núna á þrjá flokka, sem enginn nær inn, og atkvæðin falla því niður dauð. En kannanir benda til þess að sameinaður vinstri flokkur gæti vel náð inn á þing og haft burðugan þingflokk,“ segir Eiríkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×