Viðskipti innlent

Hættir sem þjálfari kokkalandsliðsins

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Snædís Xyza Mae Ocampo er yfirkokkur á veitingastaðnum Fröken Reykjavík.
Snædís Xyza Mae Ocampo er yfirkokkur á veitingastaðnum Fröken Reykjavík. Aðsend

Snædís Xyza Mae Ocampo hefur látið af störfum sem þjálfari íslenska kokkalandsliðsins þar sem hún er komin í lið Íslands fyrir hina virtu keppni Boscuse d'Or. 

„Ég sagði upp störfum sem þjálfari kokkalandsliðsins fyrir mánuði síðan sem mér fannst alveg ótrúlega erfitt þar sem maður er búinn að vera partur af því landsliði í 10 ár, farið frá því að vera aðstoðarmaður, liðsmaður, fyrirliði og svo þjálfari,“ skrifar hún í færslu á Facebook.

„Kokkalandsliðið mun alltaf eiga stað í hjarta mínu og það landslið mun alltaf vera mitt uppáhalds landslið.“

Hún tók fyrst þátt í keppni með landsliðinu sem liðsmaður árið 2018 á heimsmeistaramótinu í Lúxembourg. Þar hlaut liðið gullverðlaun fyrir heita matinn. Liðið komst fyrst á verðlaunapall á Ólympíuleikunum árið 2020 og aftur árið 2024, þá undir stjórn Snædísar.

Snædís æfir nú stíft með liði Íslands fyrir Boscuse d'Or keppnina, sem er ein virtasta kokkakeppni í heimi. Tveir Íslendingar hafa hlotið þriðja sæti í keppninni, annars vegar Hákon Már Örvarsson árið 2001 og hins vegar Viktor Örn Andrésson árið 2017.

„Er spennt fyrir þessu tímabili og er með rosalegt teymi í kringum mig og allir sem koma að þessari keppni! Rosalegt að vera að keppa í stærstu og virtustu kokkakeppni í heimi.“

Snædís starfar einnig sem yfirkokkur á Fröken Reykjavík.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×