Veður

Jólin verða rauð eftir allt saman

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Öll von um hvít jól er úti.
Öll von um hvít jól er úti. Vísir/Vilhelm

Sunnan hvassviðri eða stormur er í fullum gangi á landinu í dag. Hvassast er á norðanverðu landinu. Auk þess er spáð talsverðri eða mikilli rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu.

Gular og appelsínugular eru í gildi og fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Fyrstu viðvaranir tóku gildi síðdegis í gær og þær síðustu detta úr gildi undir hádegi á jóladag.

Í dag verður lengst af þurrt norðaustan- og austantil, að því er kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar

Óvenju hlýtt er í veðri í dag, hiti 7 til 18 stig, hlýjast í hnjúkaþey á Norður- og Austurlandi.

Á morgun dregur smám saman úr vindi, sunnan 10-18 m/s síðdegis. Áfram verður talsverð eða mikil rigning á sunnan- og vestanverðu landinu, en léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi. Áfram verður hlýtt veður.

Skil fara yfir landið aðfaranótt föstudags og þá dregur aðeins úr vætu. Vestan og suðvestan 10-18 m/s og stöku skúrir eða slydduél, en rigning eða slydda framan af degi austantil, léttir til síðdegis þar. Þá kólnar í veðri, hiti 0 til 5 stig yfir daginn.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag (jóladagur):

Minnkandi sunnanátt, 10-18 m/s síðdegis. Súld eða rigning með köflum, en yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 7 til 16 stig, hlýjast norðan- og austanlands.

Á föstudag (annar í jólum):

Snýst í vestan og suðvestan 10-18. Víða rigning, slydda eða snjókoma framan af degi og kólnandi veður. Lítilsháttar él eða slydduél eftir hádegi og rofar til á austanverðu landinu. Hiti 0 til 5 stig.

Á laugardag:

Sunnan 8-13, skýjað og sums staðar dálítil væta. Hiti 1 til 6 stig. Hægari vindur á austanverðu landinu, þurrt veður og hiti kringum frostmark, en hvessir og hlýnar þar seinnipartinn.

Á sunnudag og mánudag:

Suðvestlæg átt, skýjað og dálítil væta af og til, hiti 1 til 6 stig, en bjart að mestu og hiti nálægt frostmarki fyrir austan.

Á þriðjudag:

Breytileg átt og úrkomulítið framan af degi, en hvessir með rigningu vestantil síðdegis. Hiti 2 til 7 stig, en vægt frost á Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×