Sport

Þunga­rokkið þaut á­fram en á eftir að kaupa af­mælis­gjöf handa konunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ryan Searle var sá fyrsti til að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum á HM.
Ryan Searle var sá fyrsti til að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum á HM. Getty/James Fearn

Heimsmeistarinn Luke Littler og hinn sjóðheiti Ryan Searle urðu í kvöld fyrstir til að tryggja sér farseðilinn í átta manna úrslitin á heimsmeistaramótinu í pílukasti.

Fjórða umferð HM í pílu hófst í kvöld og þar héldu tveir af heitustu mönnum mótsins sigurgöngu sinni áfram.

Ryan Searle vann sinn leik mjög létt en Luke Littler þurfti að svitna í fyrsta sinn á þessu móti enda að mæta fyrrverandi heimsmeistara, Rob Cross.  

Josh Rock byrjaði kvöldhlutann á því að vinna Callan Rydz 4-1 og verða sá síðasti til að komast í gegnum þriðju umferðina.

Luke Littler vann 4-2 sigur á Rob Cross í lokaleik kvöldsins en þar voru tveir heimsmeistarar að mætast. Cross sýndi flott tilþrif í leiknum og það munaði ekki miklu að hann kæmi leiknum í oddasettið.

Ryan Searle, eða Þungarokkið eins og hann er kallaður, átti ekki í miklum vandræðum með að vinna 4-0 sigur á James Hurrell. Searle hefur enn ekki tapað setti á heimsmeistaramótinu en var þarna að tryggja sér sæti í átta manna úrslitunum í fyrsta sinn.

„Mér fannst þetta alls ekki nógu gott þannig að það er risastórt að ná hundrað í meðaltali. Ég óska James alls hins besta í framtíðinni, hann er fínn gaur,“ sagði Ryan Searle eftir sigurinn.

„Ég veit eiginlega ekki hvað gerðist. Ég kastaði bara nokkrum pílum og náði að vinna. Nokkrir frídagar og svo á konan mín afmæli á morgun og ég er ekki búinn að kaupa kort handa henni eða neitt,“ sagði Searle.

„Ef mér finnst ég vera að kasta vel þá veit ég ekki hvaða meðaltali ég næ. Það er miklu meira í vændum frá mér. Ég er bara þakklátur,“ sagði Searle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×