Innlent

Þremur þjófum vísað úr landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Fólkið var handtekið í Laugarneshverfi en var grunað um þjófnað víða á höfuðborgarsvæðinu.
Fólkið var handtekið í Laugarneshverfi en var grunað um þjófnað víða á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Sigurjón

Þremur erlendum ríkisborgurum, tveimur körlum og einni konu, hefur verið vísað brott frá Íslandi. Fólkið, sem er á þrítugs- og fertugsaldri og er talið tengjast skipulagðri brotastarfsemi, var handtekið 18. desember vegna þjófnaðarmála á höfuðborgarsvæðinu

Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að fólkið hafi verið í gæsluvarðhaldi þar til það var sent úr landi fyrir áramót. Fólkinu hefur jafnframt verið bönnuð endurkoma til Íslands í fimm ár. 

Greint var frá því í desember að fólkið hefði verið handtekið í umfangsmikilli lögregluaðgerð á gistiheimili í Laugarneshverfi. 

Þá kom fram að fólkið væri grunað um skipulagðan þjófnað á stór höfuðborgarsvæðinu. Þau væru grunuð um að hafa stolið bæði úr verslunum og af fólki matvælum, fjármunum og fleiru. 

Tveimur vasaþjófum var einnig vísað úr landi í nóvember. 

Ákvörðun um brottvísun er á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 samkvæmt tilkynningu lögreglunnar.

Ákvæðið hljóðar svo:

95. gr. Brottvísun EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans.

Heimilt er að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það er nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.

Brottvísun skv. 1. mgr. er heimilt að ákveða ef framferði viðkomandi felur í sér raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins. Ákvörðun um brottvísun skal ekki eingöngu byggjast á almennum forvarnaforsendum. Ef viðkomandi hefur verið dæmdur til refsingar eða sérstakar ráðstafanir ákvarðaðar er brottvísun af þessari ástæðu því aðeins heimil að um sé að ræða háttsemi sem getur gefið til kynna að viðkomandi muni fremja refsivert brot á ný. Fyrri refsilagabrot nægja ekki ein og sér til þess að brottvísun sé beitt.

Einnig er heimilt að vísa EES- eða EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef hann uppfyllir ekki skilyrði um dvöl skv. 83., 84., 85. eða 86. gr.

Einstaklingi sem hefur rétt til dvalar skv. 83. gr. er heimilt að vísa brott ef það er talið nauðsynlegt til verndar almannaheilbrigði og stjórnvöld hafa gert öryggisráðstafanir varðandi heilbrigði eigin borgara.

Útlendingastofnun tekur ákvörðun um brottvísun samkvæmt ákvæði þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×