Veður

Þykknar upp og snjóar

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Búast má við snjókomu eða éljum á norðan- og norðaustanverðu landinu á morgun.
Búast má við snjókomu eða éljum á norðan- og norðaustanverðu landinu á morgun. Vísir/Vilhelm

Vestlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s, en 8-13 við norðvesturströndina. Þykknar víða upp og dálítil él á víð og dreif seinni partinn, en yfirleitt bjart sunnan heiða.

Þetta kemur fram í textaspá Veðurstofunnar. Í dag og á morgun verða áfram fremur hægir vindar víða um land, en þó þykknar upp í dag og búast má við snjókomu eða éljum um norðanvert land á morgun, einkum norðaustanlands. 

Frost verður í dag 1 til 10 stig, kaldast inn til landsins, en dregur heldur úr frosti með deginum og hlánar sums staðar við norður- og vesturströndina.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:

Fremur hæg norðlæg átt, en strekkingur með austurströndinni. Él norðaustantil, en annars bjart með köflum. Vaxandi austan- og suðaustanátt suðvestantil með kvöldinu og þykknar upp. Frost 2 til 13 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.

Á miðvikudag:

Ákveðin austlæg átt og snjókoma eða slydda syðst á landinu, en dálítil él í öðrum landshlutum. Hiti nærri frostmarki við suðurströndina, en annars talsvert frost.

Á fimmtudag, föstudag og laugardag:

Útlit fyrir norðlægar eða norðaustlægar áttir og snjókomu með köflum eða él, einkum fyrir austan, en úrkomulaust að kalla á Vesturlandi. Áfram svalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×