Enski boltinn

Sendi United Amorim sneið að skilnaði?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim á Elland Road í síðasta leik sínum með Manchester United.
Ruben Amorim á Elland Road í síðasta leik sínum með Manchester United. getty/Ash Donelon

Manchester United greindi í morgun frá því að Ruben Amorim hefði verið látinn fara frá félaginu. Orðalagið í tilkynningu félagsins vekur athygli.

Eftir leikinn gegn Leeds United á Elland Road í gær ítrekaði Amorim að hann væri knattspyrnustjóri United en ekki þjálfari liðsins.

„Ég vil bara segja að ég ætla að vera knattspyrnustjóri þessa liðs, ekki bara þjálfari. Ég var mjög skýr með það. Því lýkur eftir 18 mánuði og þá halda allir áfram. Það var samkomulagið. Það er mitt starf, ekki að vera þjálfari,“ sagði Amorim á blaðamannafundinum eftir leikinn gegn Leeds.

Í fréttatilkynningu United segir að Amorim hafi verið látinn fara sem þjálfari United. Ekki er talað um hann sem knattspyrnustjóra.

Þjálfari, ekki knattspyrnustjóri.manchester united

Þegar Amorim var ráðinn til United í byrjun nóvember 2024 var tekið fram að hann væri þjálfari liðsins.

Tilkynningin um ráðningu Amorims til United.manchester united

Rætt var um ummæli Amorims eftir leikinn gegn Leeds í Sunnudagsmessunni í gær. Þar sagðist Arnar Gunnlaugsson gruna að Amorim hefði talað af sér og örlög hans yrðu ef til vill þau sömu Enzos Maresca sem var látinn fara frá Chelsea á nýársdag.

„Það er augljóslega einhver pirringur á bakvið tjöldin og einhver valdabarátta. Hann er að nota þessa fundi til að senda skilaboð. Því miður fyrir þessa þjálfara, hvort sem skilaboðin eru rétt eða röng, þá er yfirleitt bara einn sigurvegari í svona. Þetta endar með því að þjálfarinn er látinn fara. Ef þú ert alltaf að skjóta á yfirmann þinn í gegnum fjölmiðla þá skiptir ekki máli hversu geðþekkur þú ert, þá verður þú látinn fara,“ sagði Arnar.

United vann 24 af 63 leikjum undir stjórn Amorims, gerði átján jafntefli og tapaði 21 leik. Hann skilur við Rauðu djöflana í 6. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Darren Fletcher tekur við United til bráðabirgða og stýrir liðinu gegn Burnley á Turf Moor á miðvikudaginn.


Tengdar fréttir

Amorim rekinn

Ruben Amorim hefur verið rekinn sem knattspyrnustjóri Manchester United.

„Hef á til­finningunni að hann hafi talað af sér þarna“

Arnar Gunnlaugsson segir að Rúben Amorim, knattspyrnustjóri Manchester United, hafi eflaust ígrundað vel og vandlega ummælin sem hann lét falla á blaðamannafundi í gær. Ummælin hafa vakið mikla athygli og spurningar um framtíð Amorim.

Sesko var rangstæður og Cunha skilur ekkert

Matheus Cunha gat ekki glaðst mikið yfir stiginu sem Manchester United sótti gegn Leeds í 20. umferð ensku úrvaldsdeildarinnar. Hann skilur líka ekkert í því að mark hafi verið dæmt af honum þegar Benjamin Sesko var sá sem stóð í rangstöðunni.

Sanngjarnt jafntefli eftir stangarskot og mikla spennu

Leeds United og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli í 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Mörkin voru skoruð með skömmu millibili í seinni hálfleik og Matheus Cunha komst nálægt því að setja sigurmarkið, sitt annað mark, en skallaði í stöngina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×