Skoðun

Leik­skóli er grunnþjónusta, ekki lúxus

Örn Arnarson skrifar

Við viljum að leikskólakerfið virki og að það sé í boði fyrir okkur þegar foreldrar ljúka töku fæðingarorlofs. Þetta gekk nokkurn veginn eftir í Kópavogi 2025, meðal annars vegna þess að stórir árgangar voru að útskrifast úr leikskólum og fara í grunnskóla, á meðan minni árgangar eru að koma inn í leikskólana. Meira jafnvægi ætti að nást á næstu árum.

Í Kópavogi búum við að mestu leyti við gott kerfi. Lítið er um lokanir á leikskólum bæjarins og starfsmannavelta er lítil. Búið er að fara yfir flestar leikskólalóðir og endurnýja leiktæki, auk þess sem unnin hefur verið ítarleg þarfagreining á því hvaða leiktæki hver leikskóli þarf á sinni lóð, út frá fjölda barna. Starfsfólki líður vel og börnum líður almennt vel í leikskólum bæjarins. Kerfið virkar að flestu leyti, en alltaf er þessi litli efi sem vert er að velta fyrir sér: hvernig megi gera kerfið enn betra.

Þegar Kópavogsmódelið var fyrst kynnt var hugmyndin að kostnaðarþátttaka foreldra í rekstri leikskóla færi upp í 20%. Ljóst er að það hefði verið mjög þungur baggi fyrir marga foreldra, þar sem kostnaðarþátttakan á þeim tíma var rétt um 11%. Í Reykjavík er sama hlutfall um 6%. Þetta markmið náðist ekki og kostnaðarþátttaka foreldra í leikskólum bæjarins er enn um 11%. Hins vegar eru það aðeins um 75% foreldra sem greiða þessa kostnaðarþátttöku. Því er ljóst að margar fjölskyldur hafa fundið fyrir auknum álögum á þeim þremur árum sem módelið hefur verið við lýði.

Um áramót tók Hafnarfjarðarbær upp svipað módel. Þar er leikskóladvöl gjaldfrjáls í allt að 6 tíma á dag. Munurinn er hins vegar sá að Hafnarfjörður hækkaði ekki gjaldskrá umfram það sem áður var, heldur er kostnaður foreldra sem þurfa að nýta fleiri en 6 klukkustundir nánast sá sami og hann var áður. Sama má segja um Akureyri. Í Hveragerði lækkuðu leikskólagjöld þegar nýtt kerfi var tekið upp, sem einnig byggir á Kópavogsmódelinu.

Það er því ekki rétt að halda því fram að kerfið þurfi endilega að vera svona dýrt. Það er ákvörðun sveitastjórna hverju sinni hversu há gjaldskráin er. Það er vitað mál að margar fjölskyldur geta einfaldlega ekki farið aftur í að greiða fyrir leikskóladvöl þótt þær vildu, þar sem gjöldin eru svo há í Kópavogi. Leikskólagjöld í Kópavogi hækkuðu um áramót, líkt og annars staðar. Hækkunin var rétt um 1%, sem er lítið, en hins vegar hækkar Kópavogur gjöld fjórum sinnum á ári.

Við í Samleik höfum fengið raddir frá foreldrum um hversu íþyngjandi leikskólagjöldin eru og hve erfitt það er að fara aftur í það að greiða þau. Bærinn hefur ekki hlustað á bæjarbúa og yfirleitt snúið út úr því sem Samleikur hefur sett fram. Hins vegar virðist vera hægt að innleiða sama módel án þess að hækka gjöldin, eins og önnur sveitarfélög hafa sýnt. Því má spyrja hvers vegna Kópavogur geti ekki gert slíkt hið sama.

Höfundur er formaður Samleik – samtaka foreldrar leikskóla barna í Kópavogi.




Skoðun

Sjá meira


×