Erlent

Hafa náð einu og hálfu prósenti af Úkraínu á þremur árum

Samúel Karl Ólason skrifar
Úkraínskir hermenn nærri víglínunni í Dónetskhéraði.
Úkraínskir hermenn nærri víglínunni í Dónetskhéraði. Getty/Marharyta Fal, Frontliner

Rússar hafa gert árásir á hvert einasta orkuver í Úkraínu og ítrekaðar árásir á aðra borgaralega innviði, á sama tíma og Úkraínumenn standa frammi fyrir einhverjum kaldasta vetri á svæðinu í árabil. Með því vilja Rússar draga máttinn úr úkraínsku þjóðinni til að verjast innrás þeirra en á undanförnum þremur árum hafa Rússar eingöngu lagt undir sig eitt og hálft prósent af Rússlandi.

Denys Shmyhal, orkumálaráðherra Úkraínu, sagði í morgun að rúmlega fimmtán þúsund manns vinni við það að halda orkukerfi landsins gangandi og þeir nytu aðstoðar tuga þúsunda annarra, eins og lögregluþjóna og björgunarsveita.

Samhliða því er reynt að styrkja orkukerfið svo Rússar eigi erfiðara með að valda rafmagnsleysi.

Ástandið er hvað verst, samkvæmt ráðherranum, í Kænugarði og nærliggjandi svæðum, Í og kringum Odessa í suðurhluta landsins og í bæjum og borgum næst víglínunni.

Í Kænugarði hafa yfirvöld reist sérstök upphituð tjöld sem fólk getur leitað í vegna kuldans. Þar er rafmagns- og hitaleysi mjög algengt þessa dagana.


Eitt og hálft prósent á þremur árum

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War, sem vaktað hefur átökin í Úkraínu frá upphafi og hefur haldið utan um kort af yfirráðasvæðum í átökunum, hefur birt greiningu á landvinningum Rússa frá því innrásin var gerð í febrúar 2022.

Þar segir að ráðamenn í Rússlandi haldi áfram að dreifa þeim falska boðskap að varnir Úkraínumanna séu við það að bresta. Vísa þeir í ummæli Dmitrís Pekóv, talsmann Vladimírs Pútín forseta, frá því í gær þar sem hann sagði að aðstæður Úkraínumanna færu sífellt versnandi og glugginn til að semja væri að lokast.

Ráðamenn í Rússlandi varpa reglulega fram slíkum fullyrðingum.

Sjá einnig: Kennir Selenskí enn og aftur um

Þegar mest var, í mars 2022, stjórnuðu Rússar um 26,16 prósentum af Úkraínu. Rússar hörfuðu síðan frá svæðinu norður af Kænugarði og voru síðan reknir frá bæði Karkív og Kherson. Í lok ársins 2022 stjórnuðu þeir um 17,84 prósentum af Úkraínu.

Síðan þá hefur framsókn Rússa í Úkraínu, og þá helst í austurhluta landsins, verið mjög hæg og er talin mjög kostnaðarsöm.

Sjá einnig: Sí­fellt fleiri her­menn falla á ári hverju

Undir lok síðasta árs stjórnuðu Rússar 19,32 prósentum af Úkraínu, sem þýðir að á heilum þremur árum hafi þeir eingöngu lagt undir sig eitt og hálft prósent af Úkraínu.

Í grein ISW segir að Rússum hafi ekki tekist að beita skrið- og bryndrekum með góðum hætti. Þess í stað notast Rússar við sóknir fótgönguliða og oft í smærri hópum.

Sérfræðingar ISW telja að framsókn Rússa haldi líklega áfram og að hún verði áfram mjög hæg og kostnaðarsöm. Þá sé ólíklegt að Rússar muni geta brotið varnir Úkraínumanna á bak aftur með þeim hætti.


Tengdar fréttir

Bretar ætla að framleiða skotflaugar fyrir Úkraínu

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að Úkraínumenn ætli að auka umfang árása innan landamæra Rússlands. Þannig vilji þeir auka þrýstinginn á Rússland og grafa undan getu Rússa til að halda stríðsrekstrinum áfram.

Segist hafa grænt ljós frá Trump fyrir frekari refsiaðgerðum gegn Rússum

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Repúblikanaflokksins Í Bandaríkjunum, lýsti því yfir í gærkvöldi að hann hefði fengið Donald Trump, forseta, til að veita frumvarpi um hertar refsiaðgerðir gagnvart Rússum blessun sína. Frumvarpið, sem nýtur stuðnings þingmanna úr báðum flokkum Bandaríkjanna, var samið fyrir mörgum mánuðum síðan en aldrei lagt fyrir þing vegna andstöðu Trumps.

„Stórt framfaraskref“

Forsetar Úkraínu og Frakklands og forsætisráðherra Breta undirrituðu í kvöld samkomulag um varnir Úkraínu. Með undirrituninni samþykkja Bretar og Frakkar að senda hermenn til Úkraínu í kjölfar samkomulags um vopnahlé.

Vill lengri tryggingar og tilbúinn til að hitta Pútín

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, segir að nýjar friðartillögur sem hafi verið til umræðu milli hans og Donalds Trump, forseta Bandaríkjanna, í Flórída í gær innihaldi meðal annars tillögu um fimmtán ára öryggistryggingar handa Úkraínu. Selenskí segir að þær yrði svo hægt að framlengja enn frekar en hann lagði til við Trump í gær að öryggistryggingarnar næðu til allt að fimmtíu ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×