Sport

Á­tján ára orðin næstfljótust í sögu Ís­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Christina Alba Marcus Hafliðadóttir á sprettinum í Laugardalshöll.
Christina Alba Marcus Hafliðadóttir á sprettinum í Laugardalshöll. FRÍ

Frjálsíþróttakonan unga Christina Alba Marcus Hafliðadóttir úr Fjölni hljóp á stórkostlegum tíma í 60 metra hlaupi í Laugardalshöll um helgina.

Christina Alba er aðeins 18 ára gömul en getur núna státað sig af því að vera næstfljótasta hlaupakona í sögu Íslands.

Aðeins Íslandsmethafinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hefur hlaupið 60 metra hlaup hraðar en Christina Alba sem hljóp um helgina á 7,44 sekúndum á Meistaramóti Íslands í flokki 15-22 ára.

Um er að ræða nýtt aldursflokkamet í hópi 18-19 ára og var Christina Alba aðeins 9/100 úr sekúndu frá Íslandsmeti Guðbjargar sem hún setti fyrir þremur árum, þá 22 ára gömul.

Christina Alba Marcus Hafliðadóttir fær hér knús frá Júlíu Mekkín Guðjónsdóttur sem fékk bronsið um helgina.FRÍ

Christina Alba var 20 sekúndubrotum á undan ÍR-ingnum Eir Chang Hlésdóttur í mark og Júlía Mekkín Guðjónsdóttir úr ÍR hlaut svo brons á 8,03 sekúndum.

Christian Alba hafði best hlaupið á 7,60 sekúndum, á Aðventumóti Ármanns í desember, en náði með sinni gríðarmiklu bætingu um helgina að fara upp fyrir nokkrar hlaupakonur og í 2. sæti afrekslistans. Hún náði 1/100 úr sekúndu betri tíma en Tiana Ósk Whitworth sem er í 3. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×