Erlent

Einn lifði flug­slys í Maine af en sjö dóu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá flugvellinum í Maine eftir slysið. Flugvélin endaði á hvolfi innan við mínútu eftir að flugmenn hennar fengu heimild til flugtaks.
Frá flugvellinum í Maine eftir slysið. Flugvélin endaði á hvolfi innan við mínútu eftir að flugmenn hennar fengu heimild til flugtaks. AP/WABI

Sjö létu lífið en einn lifði af þegar einkaþota endaði á hvolfi í flugtaki í Maine í Bandaríkjunum í dag. Mikil snjókoma var á Bangor-flugvellinum þar sem slysið varð og var honum lokað eftir slysið.

AP fréttaveitan segir að snjókoman hafi verið nýbyrjuð þegar slysið varð og að öðrum flugvélum hafi verið flogið af stað þaðan skömmu áður.

Einkaþotan var af gerðinni Bombardier Challenger 600 en um 45 sekúndum eftir að flugmenn hennar fengu heimild til að taka á loft heyrast flugumferðarstjórar segja á upptökum að flugvélin sé á hvolfi. Viðbragðsaðilar voru svo mætti að flugvélinni innan við mínútu síðar en eldur kviknaði í henni.

Ekki hefur verið opinberað hverjir voru um borð í þotunni en samkvæmt AP var hún skráð á lögmannastofu í Texas og er einn stofnandi hennar skráður eigandi félagsins sem á þotuna.

Sá sem lifði af var úr áhöfn flugvélarinnar.

Slysið er til rannsóknar en sérfræðingar Rannsóknarnefndar samgönguslysa í Bandaríkjunum mæta ekki á vettvang fyrr en á morgun eða hinn.

Veðrið hefur haft mikil áhrif á flugumferð í Bandaríkjunum undanfarna daga. Um tólf þúsund flugferðir voru felldar niður í gær og um tuttugu þúsund töfðust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×