Fréttir

LÍ spáir hálfum milljarði í hagnað
Atorka Group birtir uppgjör sitt fyrir síðasta ár á morgun. Greiningardeild Landsbankans segir síðasta fjórðung félagsins hafa verið viðburðaríkan en Promens, dótturfélag Atorku, lauk kaupum á norska plastvöruframleiðandanum Polimoon á tímabilinu.

Þreyttur á fjölda spurninga saksóknara
Dómari í Baugsmálinu veitti í dag Sigurði Tómasi Magnússyni, settum saksóknara, ítrekað ákúrur fyrir að spyrja ekki hnitmiðaðra spurninga og fjalla um það sem ekki væri ákært fyrir í Héraðsdómi í dag.

Tvö kókaín-burðardýr sakfelld
Þremenningar á tvítugs- og þrítugsaldri voru í dag sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir innflutning á tæplega 400 grömmum af kókaíni. Efnin voru flutt inn frá Amsterdam í Hollandi í ágúst á síðasta ári. Burðardýrin tvö voru stöðvuð í tollhliði á Leifsstöð eftir að fíkniefnahundur fann merki um efnin. Þriðji maðurinn var sakfelldur fyrir að skipuleggja innflutninginn.

Von á bóluefni gegn fuglaflensu
Evrópska lyfjastofnunin hefur samþykkt að taka við umsókn GlaxoSmithKline um skráningu á nýju bóluefni gegn inflúensuveiru af stofni H5N1, svokallaðri fuglaflensu. Geri Evrópska lyfjastofnunin ekki athugasemdir eða óski eftir frekari gögnum frá fyrirtækinu, má vænta þess að bóluefni gegn fuglaflensu komi á markað á Íslandi og annarstaðar í Evrópu undir lok þessa árs.

Chrysler segir upp starfsfólki vegna samdráttar
Bílaframleiðendurnir DaimlerChrysler hefur ákveðið að segja upp 13.000 manns í Bandaríkjunum og í Kanada og loka einni verksmiðju fyrirtækisins í Delawer. Helsta ástæðan er samdráttur í rekstri fyrirtækisins en sala á nýjum bílum undir merkjum Chrysler dróst saman um 7 prósent vestanhafs.

Afsláttur af fasteignagjöldum aldraðra hækkar
Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur samþykkt að hækka afslátt af fasteignagjöldum elli- og örorkulífeyrisþega um ríflega 20 prósent. Hækkunin tekur gildi frá og með 1. janúar 2007. Henni er ætlað að taka mið af verðlagsbreytingum síðasta árs, hækka árlegan afslátt og jafnframt stækka hóp þeirra sem njóta afsláttarins af fasteignagjöldum.

Bakaði afmælisköku fyrir starfsfólkið
BSRB - Bandalag starfsmanna ríkis og bæja - er 65 ára í dag. Í tilefni dagsins bakaði Ögmundur Jónasson formaður samtakanna súkkulaðiköku og gaf starfsfólkinu. Tilkoma samtakanna hleypti nýjum krafti í kjarabaráttu opinberra starfsmanna á sínum tíma.

Jón Gerald telur brotið gegn sér
Jón Gerald Sullenberger segir að brotið sé gegn grundvallarréttindum hans um að fá að vera viðstaddan yfirheyrslur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni í Baugsmálinu. Eftirfarandi er yfirlýsing sem Jón Gerald sendi fjölmiðlum:

Verkfall vegna Monu Lisu
Verðir í Louvre safninu í París ætla í verkfall. Þeir krefjast hærri launa vegna álags sem fylgir því að gæta málverksins af Monu Lisu eftir Leonardo da Vinci. Launakröfurnar vegna álagsins hljóða upp á rúmar þrettán þúsund íslenskar krónur á mánuði.

Tveggja ára laumufarþegi
Tveggja ára stúlku tókst að komast frá foreldrum sínum á flugvelli í Þýskalandi og um borð í flugvél á leið til Egyptalands. Foreldrarnir voru að ganga um borð í flugvél á leið til Túnis þegar þau urðu þess vör að stúlkan var horfin. Þau tilkynntu öryggisvörðum flugvallarins í Nürnberg umsvifalaust um hvarf hennar.

Árangurslítið hjá Alþjóðahvalveiðiráðinu
Ekkert útlit er fyrir að árangur náist á ráðstefnu um hvalveiðar sem nú fer fram í Japan. Formaður íslensku sendinefndarinnar segir vonbrigði að fjölmörg aðildarríki Alþjóðahvalveiðiráðsins hafi ákveðið að sniðganga ráðstefnuna.

Unglingaofbeldi viðgekkst í Kópavogi
Gróft ofbeldi gegn unglingum viðgekkst á unglingaheimilinu í Kópavogi á áttunda áratugnum. Þetta segir fyrrverandi starfsmaður, sem segir að fara verði ítarlega yfir starfsemina þar á árum áður. Hann nefnir meðal annars dæmi af dreng sem vistaður var á heimilinu í lengri tíma og mátti þola ítrekað ofbeldi. Nánar verður fjallað um málið í Íslandi í dag.

Thai Airways fær afslátt hjá Airbus
Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur ákveðið að veita taílenska flugfélaginu Thai Airways afslátt á átta A330 farþegaþotum frá Airbus. Ástæðan eru tafir á afhendingu A380 risaþotanna, sem er tveimur árum á eftir áætlun. Thai Airways hafði pantað sex risaþotur frá Airbus en hótaði að draga kaupin til baka ef flugvélaframleiðandinn veitti flugfélaginu ekki afslátt.

Minni hljóðmengun af tengivegi við Álafosskvísl
Tengibrautin við Helgafellshverfi í Mosfellsbæ verður lækkuð um tvo metra næst Álafosskvosinni og færð fjær Varmá. Mosfellsbær hefur lagt sérstaka áherslu á að takmarka hljóðmengun frá veginum. Í fréttatilkynningu frá bænum segir að strangari reglum verði fylgt en lög kveði á um.

Meiningarlausar spurningar saksóknara
Deilt var á Sigurð Tómas Magnússon settan saksóknara í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að fylgja ekki eftir áætlun um yfirheyrslu vitna í Baugsmálinu. Jakob Möller lögmaður Tryggva Jónssonar sagði um mikil afglöp að ræða hjá settum saksóknara og að menn þyrftu að sitja undir; “sumpart meiningarlausum spurningum.”

Framleiðslukostnaður sjávarafurða hækkar mest
Vísitala framleiðsluverðs hækkaði um 0,3 prósent frá þriðja ársfjórðungi 2006. Hún er nú 121,6 stig. Vísitala sjávarafurða hækkar um rúmt eitt prósent og er 128,5 stig. Vísitalan fyrir annan iðnað lækkar um 0,3 prósent og er nú 117 stig. Hækkunin fyrir vörur sem eru framleiddar og seldar innanlands jafngildir 0,2 prósent verðhækkun, en fyrir útfluttar vörur 0,4 prósent.

Fólksflutningum til landsins fjölgar
Fleiri fluttu til landsins síðastliðin tvö ár en árin á undan. Erlendum karlmönnum fjölgar mest, en fram til ársins 2003 voru konur í meirhluta aðfluttra. Þetta kemur fram í ritröðinni Mannfjöldi um Búferlaflutninga 1986-2006 frá Hagstofunni. Austurland stendur töluvert upp úr í kjölfar stóriðjuframkvæmda og virkjana.

Aflaverðmæti skipa jókst um 10 prósent
Heildarafli íslenskra skipa í janúar nam 80.657 tonnum sem er tæp tvöföldun á milli ára. Aflaverðmætið, metið á föstu verðlagi, jókst um 10 prósent frá janúar á síðasta ári, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Þjóðverjar kaupa hlut í indverskri kauphöll
Þýska kauphöllin í Franfurt, Deutsche Börse, hefur keypt fimm prósenta hlut í kauphöllinni í Mumbai á Indlandi. Erlendum aðilum leyfist ekki að kaupa stærri hlut í indversku fjármálafyrirtæki. Ekki liggur fyrir hvað Deutsche Börse greiddi fyrir hlutinn.

Tveggja ára stúlka ætlaði ein til Egyptalands
Tveggja ára stúlka sem hljóp frá foreldrum sínum á flugvelli í Þýskalandi tókst að koma sér um borð í flugvél á leið til Egyptalands. Foreldrar stúlkunnar létu vita um leið og þeir tóku eftir því að hún væri horfin en þau voru þá að fara um borð í flugvél á leið til Túnis.

Dauðvona maður vann milljón dollara
Wayne Schenk, 51 árs, finnst hann ekki vera mjög heppinn maður þrátt fyrir að hafa unnið milljón dollara, eða um 68 milljónir íslenskra króna, í skafmiðahappadrætti New York ríkis. Hann greindist nefnilega með banvænt krabbamein aðeins fimm vikum áður.

Olíufyrirtæki borgar 13,5 milljarða í skaðabætur
Hollenska olíufyrirtækið Trafigura náði í dag samkomulagi um að borga stjórnvöldum í Fílabeinsströndinni 198 milljónir dollara, eða um 13,5 milljarða íslenskra króna, vegna mengunar sem fyrirtækið varð valdur að. Þúsundir veiktust vegna mengunarinnar. Fyrirtækið sendi skip þangað til þess að losa úrgang og reyndist hann vera eitraður.

Demókratar á móti fjölgun hermanna í Írak
Demókratar í fulltrúadeild bandaríska þingsins hófu í dag umræður um fjölgun hermanna í Írak. Þeir segja að almenningur í Bandaríkjunum hafi misst trúna á stríðið á meðan repúblikanar vara við því að grafa undan stríðinu gegn hryðjuverkum. Umræðurnar verða í þrjá daga og snúast þær um tillögu sem gagnrýnir harðlega fjölgun hermanna í Írak.

Stjórnvöld í Suður-Afríku skila landi
Stjórnvöld í Suður-Afríku hafa ákveðið að herða róðurinn til þess að bæta efnahag svarta hluta þjóðarinnar. Hluti af þeim áætlunum snýst um að skila landi í eigu hvítra til svartra.

Lifði af 3.600 metra fall
Fallhlífastökkvari sem féll 3.600 metra til jarðar og lifði það af setti nýverið myndband af atvikinu á internetið. Á myndbandinu sést hvernig hann hrapar nær stjórnlaust til jarðar, og að því er virðist, dauða.

Correa fær að halda stjórnarskrárþing
Forseti Ekvador, Rafael Correa, vann í dag mikinn sigur á andstæðingum sínum í þinginu. Þingið samþykkti loks beiðni hans um að fá leyfi til þess að endurskrifa stjórnarskrá landsins. Þingið hafði ávallt verið á móti þeim hugmyndum Correa en hann hefur ekki eiginlegan þingflokk á bak við sig. Hann biðlaði þess í stað til almennings sem mótmæli afstöðu þingmanna og í dag samþykkti þingið loks tillögu Correa.

Írakar nýta sér tæknina til að komast af
Almenningur í Írak er farinn að nota forritið Google Earth til þess að komast hjá ofbeldi í Bagdad. Sumir hafa meira að segja sett upp vefsíður þar sem bent er á hættuleg svæði.

Hof skal húsið heita
Menningarhúsið sem nú er í smíðum á Akureyri hefur fengið nafn. Hof skal það heita. Efnt var til opinnar samkeppni um hvað húsið skyldi heita. Í dag var niðurstaðan kunngörð. Þau Aðalbjörg Sigmarsdóttir og Heimir Kristinsson skiluðu bæði inn sama nafni og fengu að launum ársmiða á viðburði hússins.

Ný stjórn skipuð hjá Ríkisútvarpinu ohf.
Ný stjórn Ríkisútvarpsins ohf, hefur verið skipuð. Í henni sitja Kristín Edwald, Páll Magnússon og Ómar Benediktsson, Svanhildur Kaaber og Jón Ásgeir Sigurðsson. Allir flokkar á Alþingi komu að því að skipa í stjórnina, sem er kosin til eins árs.

Meistarinn lætur gott af sér leiða
Fern samtök fengu í dag afhenta tæpa milljón króna sem safnað var í tveimur þáttum af Meistaranum. Undanfarin fimmtudagskvöld hefur sjónvarpsþátturinn Meistarinn verið með öðru sniði, með liðakeppni og greitt sérstaklega fyrir stig. Með þessu móti safnaðist tæp milljón króna og í dag fengu fern samtök að njóta góðs af því.